Æskudýrkun?

Er alveg hræðilegt að vera gamall á Íslandi? Er unga, sæta fólkið að hirða öll góðu störfin? Ríkir æskudýrkun í íslensku þjóðfélagi? Eða stjórna kannski hin gömlu, reyndu öfl bak við tjöldin með nokkrar unglegar strengjabrúður almenningi til skemmtunar og augnayndis?

Mörgum er tíðrætt um svokallaða „æskudýrkun“ þjófélagsins. Hún á að felast í því að vinsælt sé að vera ungur, hvort sem er í starfi eða stjórnmálum. Ungt fólk er ráðandi á í auglýsingum, hvort sem er fyrir farsíma, bílalán eða fatnað. Andlit ungs fólks eru því jafnan tengt einhverju frísku, einhverju frumlegu.

Eins, þegar fyrirtæki ráða til sín fólk eða stjórnmálaflokkar raða saman listum þá leitast stjórnendurnir við að hafa sem flesta „unga“ innan sinna vébanda. Sumir þeirra gera þetta eflaust meðvitað, til að láta aðra tengja flokkinn eða fyrirtækið einhverju frísku og frumlegu, meðan að aðrir eru sjálfir svo djúpt sokknir í æskudýrkuninni að þeir velja bara unga óhæfa fólkið fram yfir hina eldri og reyndari.

Þetta eiga að vera birtingarmyndir hinnar svokölluðu æskudýrkunar.

Nú er það freistandi, og reyndar víðtekin venja, að þegar einhver skoðun er algeng þá leitast pistlahöfundar eins og ég við halda fram hinu gagnstæða. Þetta er svipað því þegar einhver segir að appelsínugulur sé uppáhaldsliturinn hans, eingöngu til að skapa sér sérstöðu, því allir vita að hvaða litur er flottastur og ekki er það appelsínugulur.

Spurningamerkið í lok fyrirsagnar, hæðnislegar spurningar í innganginum og “hin fíflin segja”-formáli ættu nú að gera öllum ljóst að það sé einmitt tilgangur þessa pistils að gera lítið úr æskudýrkun þjóðfélagsins. Vonandi að það takist áður en höfundur kafnar í sínum eigin formhroka.

Nú skal það að viðurkennt að eflaust eigi ungt fólk auðveldara uppdráttar á ýmsum sviðum sökum aldurs. En er það fólk í hvívetna einhverjir sérstakir boðberar æskunnar? Hver er yfirhöfuð hin íslenska æskumenning?

Til að byrja með þá gera fáranleg lög um áfengiskaupaaldur það að verkum að engin vill kannast við að vera á aldrinum 16-20 ára. Fólk á þessum aldri hefur fáa staði til að skemmta sér á löglega. Fólk leitast því við að klæða sig í fullorðinslegri föt, mála sig, lita hýunginn dökkann og sprengja bólurnar. Hvað sem er til að eldast um tvö þrjú ár.

Reyndar kemur fyrir að menntaskólakrakkar fá að fara löglega inn á skemmtistaði. Það gerist á svokölluðum „skólaböllum“. Þá klæða ungmennin sig upp jakkaföt og síðkjóla til að stíga dans við tónlist Stuðmanna. Æskudýrkuninni til dýrðar!

Þegar ungt fólk kemst á þing og í bæjarstjórnir er hagar það þá sér sem sérstakir „fulltrúar“ ungs fólks? Nei, þeir eru bara fulltrúar fyrir sinn flokk eða hreyfingu, enda engin ástæða fyrir sérstaka „fulltrúa“ hinum og þessum smáhópum til dýrðar. En samt eru þeir alltaf auglýstir þannig fyrir kosningar.

Vonandi ætlar einhver hinna nýkjörnu „ungu fulltrúa“ að berjast fyrir mesta hitamáli fólks á aldrinum 18-20 ára nái þeir kjöri. Það er samt ólíklegt að svo verði. Í KosningaAti um daginn gafst ungum kjósendum færi á að spyrja frambjóðendur spurninga. Unga fólkið spurði um menntun, skatta og fæðingarorlof sem vissulega skipta miklu máli en engin spurði þeirrar einföldu spurningar sem brennir á svo mörgum: „Hvenær ætlið þið að leyfa fullorðnu fólki að kaupa sér bjór?“

Í allri æskudýrkuninni er ungt fólk nefnilega oft hrætt við að taka þátt í umræðunni á sínum eigin forsendum. Af ótta við að vera álitið barnalegt.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.