Í því róstursama umhverfi sem við búum við verður fólki tíðrætt um þátt trúarbragða í því að hvetja menn til stríðsrekstrar, hryðjuverka og annars ofbeldis. Hversu stór sá þáttur er skal hér ósagt látið, en ljóst er að trúarbrögð hvetja menn líka til annarra verka. Þetta eru líknarstörf, samhjálp og önnur miskunnsemi við náungann. Þótt þau verk séu jákvæðari en stríðsrekstur eru þau ekki óumdeild.
Fyrir Íslendinga eru trúarleg líknarstörf mest áberandi í söfnunarkössunum frá Hjálparstofnun kirkjunnar sem árlega koma inn á heimili landsmanna. Með myndum af sveltandi börnum og tilvísun til kristilegs siðferðis er reynt að fá okkur til að taka þátt í því hjálparstarfi sem kirkjan stendur fyrir. Margir láta þúsundkall eða tvo af hendi rakna, en slík framlög eru þó lítil miðað við þá orku sem ýmsir trúaðir einstaklingar eyða í að hjálpa öðrum.
ABC barnaþorpin, sem hjálpa munaðarlausum börnum erlendis, byggjast á þrotlausri vinnu trúaðra einstaklinga, sem leggja mikið á sig til að safna fé til verksins. Árangur í fjársöfnun félagsins hefur verið góður, en nýting fjárins hefur þó verið enn athyglisverðari, því félagið er eitt af skilvirkustu líknarfélögum á Íslandi. Kostnaður félagsins er í algeru lágmarki, þar sem mjög stór hluti vinnunnar er unninn af trúuðum einstaklingum, sem vinna í sjálfboðavinnu í meira mæli en önnur sambærileg félög geta krafist af starfsfólki sínu.
Raunar bendir reynslan erlendis frá að skilvirkni sé einmitt í mörgum tilfellum meiri ef að rekstrinum standa trúarfélög. Meðal annars virðast skólar og líknarsamtök í Bandaríkjunum sem rekin eru af trúarfélögum veita talsvert betri þjónustu fyrir minna fé en sambærilegar stofnanir sem reknar eru án trúarlegra tengsla.
Og það eru fleiri en útlendingar sem njóta góðs af trúarlegri samhjálp. Meðlimir í Krossinum lögðu sitt af mörkum með stofnun sérstakrar neyðarlínu til varnar sjálfsmorðum. Íslenska þjóðkirkjan er líka langt í frá aðgerðarlaus í mannúðarmálum og prestar kirkjunnar mynda víðtækt öryggisnet sem grípur marga þá ekki fá hjálp annars staðar frá.
Gott og blessað kynni maður að segja, en þetta er ekki öll sagan. Íslenskir prestar eru kirkjunnar þjónar, en líka nokkurs konar ríkisstarfsmenn, með tryggar fjárveitingar. Þar sem prestar þurfa að fjármagna sig sjálfir, út frá trú annarra, lítur málið ekki jafnvel út. Í Bandaríkjunum njóta ekki allir prestar slíkrar virðingar, sjónvarpsprestarnir frægu eru alþekktir loddarar. Barnaníðingsmál hafa loðað við kaþólsku kirkjuna. Í Afríku gefur fólk til kirkjubygginga þótt það hafi ekki efni á að kaupa skólabækur handa börnum sínum.
Erfitt er að ímynda sér að þeir sem að ofan er rætt um séu í raun trúaðir, eða í það minnsta menn sem gera sér grein fyrir því að þeir eru að syndga. En vandinn getur líka skapast þótt viljinn sé góður. Sjálfsmorðslínan hér að ofan var fallegt framtak. Viðhorf Krossins til samkynhneigðra er samt ekkert leyndarmál og heyrst hefur að samkynhneigðir njóti lítillar samúðar hringi þeir inn í neyð sinni.
Þrátt fyrir að trúarlegir skólar í Bandaríkjunum virðist hagkvæmari en aðrir, eru þeim settar miklar skorður, einmitt vegna þess að þeim hafa einnig fylgt vandamál. Innræting á trúarlegu ofstæki, fyrirlitningu á öðrum trúarhópum og virðingarleysi fyrir siðum annarra á sér stað í sumum þeirra. Slíkir skólar eiga trúlega einnig einhvern þátt í því að 45% bandaríkjamanna trúa því að þróunarkenningin sé röng og sköpunarsagan sé eina skýringin á tilurð mannsins.
En þótt tilteknir aðilar geri slæma hluti í skjóli trúarbragða þýðir það ekki í sjálfu sér að trúarbrögð séu slæm, guðleysingjar gera líka slæma hluti. Á trúarbrögðum eru hins vegar ákveðin einkenni sem auka líkurnar á því að slík vandamál komi upp.
Kjarninn í kristinni trú, gyðingdómi og islamskri trú er viðurkenning á tilteknum kenningum sem ekki er hægt að sanna eða afsanna, þeim þarf að trúa án gagnrýni. Þegar samhjálp og önnur starfsemi er byggð á slíkri forsendu er leiðin greið fyrir þá sem tilbúnir eru til að nýta sér græskuleysi annarra. Það er beinlínis eðli trúarbragða að draga úr sjálfstæðri hugsun og trausti á eigin dómgreind.
Hinn mjói vegur meðalhófsins er vandrataður. Í krafti trúar hefur margt gott gerst og boðskapur kristninnar er í meginatriðum mjög fallegur boðskapur. Því má þó ekki gleyma að í honum leynist ýmislegt sem hægt er að túlka á slæman veg. Þegar trúin hvetur menn til góðra verka ber að fagna því, en þau víti sem hér hafa verið rædd ber að varast.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020