Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrir skemmstu virðist sem einungis um fimmtungur íslenskra kjósenda sé ánægður með fyrirkomulag fiskveiða hér við land. Óánægjan með kvótakerfið er að miklu leyti drifin áfram af alls kyns gróusögum af svokölluðu braski og þeim ofsagróða sem fjölmargir telja að “útvegskóngarnir” raki fyrirhafnarlítið til sín í krafti sérúthlutaðra hlunninda.
En það hefur aldrei verið svo á Íslandi að menn hafi getað sótt “gull í greipar Ægis” án fyrirhafnar eða áhættu. Ekki nóg með að sjósókn sé hættuleg atvinnugrein hún er einnig fjárhagslega áhættusöm fyrir sjómennina sjálfa, útgerðarmenn og plássin sem treysta á afkomu sjávarútvegsins. Þessi áhætta kristallaðist vel í stöðu íslenskra útvegsfyrirtækja fyrir tveimur áratugum þegar flest fyrirtækin voru að nálgast fjárhagslegt þrot. Staða sjávarútvegsins er sem betur fer miklum mun betri í dag þrátt fyrir að heildarafl verðmætustu sjávarafurða sé mun minna heldur en þegar “best” lét á íslenskum fiskimiðum. Þessi viðsnúningur er ekki síst því að þakka að við höfum nú búið við kerfi framseljanlegra aflaheimilda í hartnær tvo áratugi.
Stærsti kosturinn við núverandi fiskveiðikerfi er að í því felst að bærilegt rekstraröryggi er fyrir þær útgerðir sem hefur verið úthlutað, eða hafa keypt sér, hlutdeild í heildarmagni leyfilegs afla við Íslandsmið. Þetta öryggi hefur gert fyrirtækjunum kleift að breyta sjávarfanginu sem næst við Ísland í mikil verðmæti á erlendum mörkuðum.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja á Akureyri, hefur að undanförnu látið í sér heyra verðandi umræðuna um kvótakerfið og finnst lítið til málflutnings ýmissa stjórnmálamanna koma. Í viðtali hjá Ingva Hrafni Jónssyni, á Útvarpi Sögu, í vikunni, sagðist hann furða sig á þeirri fákunnáttu sem stjórnmálamenn hafi opinberað um eðli nútímasjávarútvegsfyrirtækja. Hann hefur bent á að það dugi lítið fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að fara bara út á sjó og veiða fiskinn – verðmætasköpunin eigi sér stað við verkun og sölu afurðarinnar. Sjávarútvegurinn er nefnilega matvælaframleiðsla en ekki gullgröftur.
Ungir landkrabbar úr Samfylkingunni fóru út á Tjörn að dorga fyrir skemmstu. Litlar fréttir hafa borist af aflabrögðunum en þau hafa vafalítið verið í lakari kantinum. Þessir aðilar telja samt sem áður að þeir eigi fulla heimtu á því að fá í sinn vasa vænan skerf af þeim arði sem af rekstri útgerðarfyrirtækja hlýst. Þeir telja það mikið réttlætismál að kvóti og eignir séu hirtar af fyrirtækjum á borð við Samherja og þeir látnir punga aftur út fyrir heimildinni til þess að afla sér hráefnis til framleiðslu sinnar.
Áróður Samfylkingarinnar í umræðunni um sjávarútvegsmál er flokknum til skammar. Auk þess að senda ungliðana sína illa búna til sjós á Reykjavíkurtjörn hefur flokkurinn birt vægast sagt ósmekklegar blaðaauglýsingar þar sem látið er í það skína að íslenskir útgerðarmenn flatmagi á sólarströndum á meðan peningarnir fyrir „gjafakvótann“ streyma inn. Staðreyndin er sú að útgerðarmenn þurfa mikið að hafa fyrir því að skapa verðmæti úr auðlindinni okkar og m.a. vegna velgengni þeirra, hugvitsemi og atorku hefur Íslendingum tekist að gera sjávarútveg að ábatasömum atvinnuvegi sem skilar miklum tekjum til þjóðarinnar – á sama tíma og sjávarútvegur er í flestum ríkjum niðurgreidd atvinnustarfsemi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021