Í pistli eftir undirritaðan sem birtist hér á Deiglunni í gær var fjallað um þann boðskap sem sveif yfir vötnum á stofnfundi Félags íslenskra feminista. Þar var sérstaklega fjallað um þann boðskap sem kom fram á fundinum um ofsóknir á hendur einstaklingum sem hafa verið sakaðir um kynferðisbrot og jafnframt um ofbeldi og niðurlægingu á erlendum ferðamönnum sem þjást af ranghugmyndum um meint lauslæti íslenskra kvenna.
Enn sem komið er hefur ekkert af þeirri martröð orðið að veruleika en ýmis teikn eru á lofti því einstakir félagar í Félagi íslenskra feminista eru þegar farnir að framfylgja vægari „draumum“ Gyðu Pétursdóttur um aðgerðir gegn fjölmiðlum sem birta nekt, klám eða annað sem er íhaldssömum siðferðisskoðunum þeirra ekki að skapi.
Það er rétt að vara Félag íslenskra feminista við þessari braut. Eins öfugsnúið og það hljómar þá er félagið þegar komið í sömu spor og Félag íslenskra þjóðernissinna. Félagsmenn eru á opinskáan hátt farnir að ræða um réttarbrot á öðrum einstaklingum sem standa utan félagsskaparins til að ná fram markmiðum félagsins. Umræðan á sér öll stað á vettvangi félagsins þ.e. á fundum og póstlista þess. Í ofanálag hefur umræðan greinilega áhrif því einstakir félagsmenn eru farnir að grípa til þeirra úrræða sem eru boðuð á þessum vettvangi.
Hópar og félög sem hvetja til lögbrota njóta hvorki verndar félagafrelsis né tjáningarfrelsis stjórnarskrár. Við megum aldrei gleyma því að réttur til líkama og lífs, eignarrétturinn og rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi eru grundvallarmannréttindi á sama hátt og jafnrétti. Það er mikill tvískinnungur í því að berjast fyrir einum afmörkuðum þætti mannréttinda en vilja á sama tíma skerða önnur með grófum hætti. Mannréttindasáttmáli Evrópu býður ekki upp á slíka misnotkun en sá skilningur hefur margoft komið fram hjá Mannréttindadómstólnum að ekki sé heimilt að nota mannréttindi til að ráðast á önnur mannréttindi. Þannig að á sama hátt og rasistar geta ekki notað tjáningarfrelsi til að hvetja fólk til ofbeldis á innflytjendum þá geta feministar ekki heldur hvatt til skemmdarverka, ofbeldis, innrásar inn í einkalíf sakaðra manna eða logið upp á menn sakir.
Í þessu samhengi skiptir það engu máli þótt stjórn félagsins líti undan þessari háttsemi og haldi því fram að þetta séu einungis einstakir félagsmenn en ekki félagið í heild sinni. Stjórn félagsins hefur aldrei fordæmt þær skoðanir sem komu fram í stofnfundarávarpinu eða gert neitt sem lýsir vanþóknun á þeim öfgum sem verið er að boða. Hún hefur leyft félagsmönnum að boða lögbrot á póstlista félagsins. Hún hefur opinberlega tekið undir grófar aðgerðir gegn fjölmiðlunum vegna kláms sem jaðra við að vera ólögmætar. Svona vinnubrögð eru þekkt trikk hjá þrýstihópum út um allan heim til að firra sig ábyrgð á háttsemi sem þeir styðja á bak við tjöldin. Í slíkum þrýstihópum finnst stjórnendunum oft hentugt að hafa öfgamenn innan sinna raða sem vinna ólöglegu skítverkin fyrir félagið. En auðvitað er þetta alltaf rakið aftur til heimahúsanna. Eru menn virkilega svo firrtir að telja að ef t.d. einstakir félagsmenn í Félagi íslenskra þjóðernissinna tækju sig saman og færu út í miklar ólöglegar aðgerðir gegn útlendingum eftir að búið væri að ræða aðferðirnar opinberlega á fundi hjá félaginu og á póstlista þess að það yrði ekki rakið aftur til félagsins og hefði afleiðingar fyrir það.
Þetta ástand er virkilega sorglegt fyrir þann þögla meirihluta sem er í Félagi íslenskra feminista. Í félaginu er fullt af fólki sem var verulega óánægt með stofnfundarávarp Gyðu Pétursdóttur og þá ímynd sem félagið hefur skyndilega fengið á sig fyrir öfgar og hvatningu til lögbrota. Fólk sem er óánægt með að öfgafólk fái að vaða uppi innan félagsins og eyðileggja góðan málstað. Það er óánægt með að stjórn félagsins geri ekkert til að koma í veg fyrir að félagið sé misnotað með þessum hætti þar sem hún vill ekki styggja þetta öfgafólk. Þetta er fólk sem vill vinna löglega af heilum hug til að tryggja jafnrétti kynjanna og almenn mannréttindi. Þetta er fólk sem virðir lög, mannréttindi og ber virðingu fyrir náunganum. Þetta eru hinir alvöru feministar.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020