Í fyrra þegar ég var staddur á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn, labbaði ég fram hjá mótmælum nokkra vinstrisinnaðra ungmenna. Einn mótmælenda
kom og lét mig hafa teiknaða dæmisögu um „Illa verksmiðjueigandann“ eins og hún var kölluð og um leið og hann rétti mér miðann sagði hann: „Réttlæti fyrir fólkið“.
Dæmisagan sýndi hvernig ungur grannur maður kom með hamar, nagla og spýtur, og byrjaði að smíða verksmiðju. Svo réð hann til sín fólk sem fór að framleiða. Á seinustu myndunum var sýnt hvernig verksmiðjueigandinn fór að græða á tá og fingri, fitnaði og byrjaði að telja aurana sína. Starfsmennirnir voru sýndir sem óhamingjusamir þrælar verksmiðjueigandans, alltaf jafn grannir.
Ég var ekki alveg viss um hvað ég átti að skilja út úr þessari sögu þegar ég sá hana, ég var alltaf að leita að þessum „Illa verksmiðjueiganda“, eins og sagan var kölluð. Ég sá eitthvað allt annað.
Þarna sá ég duglegan ungan mann sem ákvað í staðinn fyrir að vinna hjá öðrum að leggja út í áhættu við að hefja atvinnurekstur. Til þess að stofna verksmiðjuna hefur farið í bankann og sannfært þá um þátttöku, og líklega lagt heimili sitt að veði. Í þessari sögu var hann svo lánssamur að reksturinn gekk vel og hann hélt heimilinu.
Á hinn bóginn sá ég fólk sem var ekki tilbúið að leggja í sömu áhættu og ungi maðurinn. Það hafði nú vinnu hafi það verið atvinnulaust fyrir eða það hefur ákveðið frekar að vinna hjá unga manninum, umfram þá vinnu sem það hafði áður. Hvort sem var hafði ungi maðurinn aukið
valkosti og bætt hag fólksins.
Þegar allt kom til alls var ég bara sammála manninum sem rétti mér dæmasöguna, þegar hann sagði: „Réttlæti fyrir fólkið“. Réttlæti til þess til að hafa vinnu við sitt hæfi, fá laun og geta framfært fjölskyldu sinni. Réttlæti til að eiga möguleika á að stofna fyrirtæki og hagnast, gangi reksturinn vel. Ég held samt að hann hafi ekki
verið að tala um þannig réttlæti.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020