Ekki hægt að gera ítrustu kröfur til manns í hlutastarfi

Á dögunum var gengið frá endurráðningu Atla Eðvaldssonar sem landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta. Að lokinni riðlakeppni EM í haust lá Atli undir ámæli og dráttur varð á að gengið yrði frá endurráðningunni. Árangur Atla við stjórn liðsins er hins vegar fullkomlega ásættanlegur þegar haft er í huga að Atli var á sínum tíma ráðinn til að sinna starfi landsliðsþjálfara í hlutastarfi. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess, að maður í hlutastarfi kynni sér ástand leikmanna sem eru atvinnumenn erlendis eða rannsaki leik andstæðinga landsliðsins fyrirfram. Það er einfaldlega ekki það sem hann fær borgað fyrir að gera.

Atli hefur ítrekað kvartað undan óvæginni gagnrýni fjölmiðla á störf sín og svo er að skilja á honum að enginn þjálfari hafi nokkurn tímann þurft að þola aðra eins gagnrýni. Atli hefur auðvitað reynt að bera hönd fyrir höfuð sér og tínt ýmislegt til, eins og sigurinn á Tékkum og … jæja, en það er óskiljanlegt að hann skuli ekki hafa bent gagnrýnendum sínum á þá staðreynd, að ekki sé hægt að gera sömu kröfur til manns í hlutastarfi og þess sem sinnir starfi landsliðsþjálfara eingöngu. Eins og gefur að skilja, þá hafa forráðamenn KSÍ verið ófáanlegir til að upplýsa um launakjör Atla hjá sambandinu. En auðvitað verður að ganga út frá því, að launakostnaður landsliðsþjálfara miðist við hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða.

Í viðtali við Morgunblaðið að loknum leik Íslands og N-Írlands á Laugardalsvelli í október á síðasta ári, sagði Atli það ekki þjóna neinum tilgangi að vera í fullu starfi sem landsliðsþjálfari, því liðið léki kannski ekki nema átta leiki á ári, og óþarfi fyrir sig að sitja þess á milli á skrifstofu KSÍ og segja brandara. Atli bætti svo við: „Starfið sem ég er í hentar svo vel með landsliðinu að það er alveg lygilegt.“

Vonandi mun aðalstarf Atla Eðvaldssonar fara jafnvel enn betur með landsliðsþjálfarastarfinu á næstu tveimur árum, jafnvel betur en svo að það verði „alveg lygilegt“.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)