Dimisjónbullurnar

Fyrir stuttu fór fram dimitering hjá stúdentsefnum hjá Menntaskólanum við Sund. Þessi reglubundni atburður væri ekki frásögur færandi nema vegna óvenjumikillar ölvunar og dólgsláta nokkurra stúdentsefna.

Fyrir stuttu fór fram dimitering hjá stúdentsefnum hjá Menntaskólanum við Sund. Þessi reglubundni atburður væri ekki frásögur færandi nema vegna óvenjumikillar ölvunar og dólgsláta nokkurra stúdentsefna. Ballið byrjaði strax á skólalóðinni en kennarar í nærliggjandi barnaskóla kvörtuðu yfir því að stúdentsefnin í MS hafi gert sér leik að því að hella bjór yfir litlu börnin sem voru úti í frímínútum. Ekki skánaði ástandið þegar niður í bæ var komið en skv. lögreglu var hluti nemendanna ofurölvi og gekk berserksgang í miðbænum, braut rúður og kastaði flöskum í bíla. Steininn tók síðan úr þegar tvö stúdentefni réðust á verslunareiganda á Laugaveginum og veittu honum höfuðáverka. Reyndar liggur víst önnur líkamsárasarkæra inni hjá lögreglu en ekki er vitað um afdrif hennar.

Það er greinilegt af yfirlýsingunum skólayfirvalda Menntaskólans við Sund að þau telja sig hafa fullt forræði og agavald yfir nemendunum vegna þessara brota sem voru flest framin á Laugaveginum. Skólinn lagði efnislegt mat á brotið og tók stjórnvaldsákvörðun um að stúdentsefnin sem réðust á verslunareigandann fái að ljúka stúdentsprófi. Í yfirlýsingu frá skólanum kemur fram að stúdentsefnin hafi sýnt iðrun, beðist afsökunar og ákveðið að fara í ráðgjöf vegna atviksins. Stúdentsefnin tvö fá hins vegar ekki taka þátt í hátíðardagskrá skólans, þegar einkunnir verða afhentar, þann 28. maí.

Það er alls óvíst að skólayfirvöld séu að gera sér greiða með þessari rúmu túlkun á eigin valdi. Réttindum fylgja skyldur og ef menntaskólinn telur sig hafa agavald yfir nemendunum sínum á miðjum Laugarveginum þá ber hann einnig ábyrgð á þeim þar. Það gengur nefnilega ekki upp að skólinn geti refsað nemendum fyrir háttsemi utan starfsviðs skólans. Ef dimiteringin á Laugaveginum var enn atburður á vegum skólans þá bar skólanum að halda uppi eðlilegu eftirliti með velferð nemendanna og tryggja að þeir færu sér ekki að voða. Skólinn er því kominn í sérkennilega stöðu, hann tók stjórnvaldsákvörðun um að leyfa viðkomandi aðilum að vera áfram í skólanum en er með því að gera sig að einhverju leyti ábyrgan fyrir atburðunum á sama tíma.

Það er ljóst að framhaldsskólar geta ekki haldið uppi eftirliti með nemendum skólans utan skólalóðarinnar þannig að dæmið getur einfaldlega ekki gengið upp. Skólarnir geta ekki sleppt og haldið í þessu máli. Ef þeir hafa vald yfir nemendunum þá bera þeir einnig ábyrgð. Hvað með brot skrópandi nemenda utan skólalóðarinnar á skólatíma? Hvað með brot nemenda sem eru á eða fyrir utan skólaböll eða í bekkjateitum? Einhvers staðar verður að draga mörkin og þegar þau eru látin ná yfir blindfullar dimmisjónbullur undir áfengiskaupaaldri sem eru að ganga berserksgang á miðjum Laugavegi í grímubúningum þá fer ansi margt annað að rúmast innan markanna.

Þrátt fyrir að brot nemenda geti oft og tíðum verið tímabundið slæm fyrir skólann þá verðum við að hafa í huga að það á við um flesta hópa. Brot íþróttamanna utan vallar, nýbúa, lögreglumanna á frívakt og annarra hópa eru yfirleitt slæm fyrir þann hóp sem viðkomandi tilheyrir. Fólki úr þessum hópum er samt ekki refsað sérstaklega fyrir það eitt að koma óorði á sinn hóp. Það er fátt sem bendir til þess að framhaldsskólanemar eigi að vera einhver undantekning á því.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.