Það er nú meira hvað Bandaríkjamenn ætli sér að taka uppbyggingu Íraks alvarlega. Ruslatunnurnar í Bagdad loguðu enn þegar tilkynnt var hver yrði næsti áfangastaður á tjónleikaferðagi Bandaríkjahers um múslimaríki: Sýrland.
Hér á Íslandi höfum við kannski ekki mikið orðið vör við undirbúning ásakana á hendur Sýrlendingum enda eru íslenskir fjölmiðlar enn býsna uppteknir af nútíð og framtíð Íraks. Hins vegar kveður við annan tón þegar horft er á bandarísku fréttastöðina Foxnews.
Ég veit ekki til þess að íslenskir áhorfendur hafi enn fengist að kynnast þeirri merku fréttastöð en sjálf skilgreinir hún sig sem mótvægi við “ofurfrjálslyndar og vinstrisinnaðar” fréttastöðvar á borð við CNN. Stöðin hefur flutt nær stanslausar fréttir af “stríðinu gegn hryðjuverkum” í á annað ár, með bandaríska fánann blaktandi í skjáhorninu. Af og til brjóta fréttamenn stöðvarinnar þó upp dagskránna með því að taka fyrir nýleg morð og krefjast dauðadóms yfir hinnum grunuðu. Erlendar fréttir stöðvarinnar takmarkast nær eingöngu við ríki sem Bandaríkin hyggjast gera árás á. Já, og auðvitað Ísrael.
Það var fróðlegt að fylgjast með útsendingu stöðvarinnar í gær, páskadag. Náðu andbandarísk mótmæli í Bagdad að fanga athygli fréttamannana? Höfðu þeir áhuga á lyfjaskorti á sjúkrahúsum í Bagdad? Vatnsskorti í Basra? Eða því hvort tækist að byggja upp lýðræði í landinu með jákvæðum afleiðingum fyrir öll Mið-Austurlönd? Nei. Írak tilheyrir nefnilega fortíðinni. Framtíðin er Sýrland.
Hópur “álitsgjafa” stöðvarinnar tók að sér að búa til ásakanir á hendur Sýrlendingum. Sýrlendingar héldu hlífsskildi yfir samstarsmönnum Saddams. Sýrlendingar byggju yfir gereyðingavopnum. Stjórn Sýrlands væri ekki lýðræðislega kjörin. Sýrlendingar studdu við bakið á palestínskum hryðjuverkamönnum. Sýrlendingar hefðu með ólögleglegu hætti tryggt sér ítök í stjórn Líbanons o.fl.
Þessar ásakanir eru svipaðar þeim sem Donald Rumsfeld dómsmálaráðherra hefur verið að tína til eftir falli Bagdad. Það segir nú eitthvað um tryggð Bandaríkjamanna við heimsfriðinn að þeir skyldu hafa uppi alvarlegar hótanir við eitt ríki á meðan hernaði gegn öðru er vart lokið. Væri ekki málið að byggja upp lýðræði í Írak og vonast til að það gefi gefi nágrannaríkjum Íraka gott fordæmi?
Að lokum er ekki hægt að annað en að minnast á spilastokkinn sem gefinn var út með 55 eftirlýstum Írökum. Maður hugsar nú bara: “Krapp!” Hvaða Lukku-Láka fílingur er þetta eiginlega? Halda sumir að Miðausturlönd séu Villta-Vestrið? Ætlar Bandaríkjastjórn kannski að endurreisa íraskan efnahag með gerviperlum og glópagulli?
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021