Á sömu opnunni í Fréttablaðinu á skírdag segir annars vegar í fyrirsögn: Tákn páskanna hneigjast flest að vorkomunni – og hins vegar segir: Páskarnir eru höfuðhátíð kristninnar. Hvorutveggja er öldungis hárrétt.
Dr. Ólína Þorvarðardóttir minnir okkur á að rétt eins og aðrar trúarhátíðir eiga páskar sér ákveðin tákn sem flest hneigjast að frjóseminni og vorkomunni. Egg og ungar minna okkur á nýja byrjun, nýtt upphaf. Vorið vængjum sínum blakar og lífið kviknar allt um kring. Þannig á þessi hátíð á vori sér langa sögu með þjóðum á norðurhveli jarðar þegar fólk kastaði af sér vetrardrunganum og fagnaði sumarkomu.
En dómkirkjupresturinn, sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson,minnir okkur á það, sem við eigum öll að vita, að páskarnir eru helsta hátíð kristinna manna vegna þess að þá fögnum við því að lífið hefur sigrað dauðann. Guð í kærleika sínum reisti Jesú upp frá dauðum og það er fyrirmynd þess sem verður með okkur hvert og eitt þegar stund okkar kemur. Þannig verða páskarnir öflugt tákn um nýtt upphaf, nýja byrjun – um vorkomu í mannheimi. Kristið fólk er allt á einu máli um að atburðir páskanna eru undirstaða trúarinnar. Það sem þá gerðist hafði slík áhrif að heimurinn hefur ekki verið samur á eftir. Guðspjöllin segja frá – en þar eru dauðlegir menn að reyna að færa í letur eitthvað sem er ofar mannlegum skilningi. En eftir stendur að fyrir trúnna á Jesú komust lærisveinar hans undir áhrif þess Guðs sem gaf lífi þeirra tilgang og fyrirheit. Þannig hefur það verið síðan og þannig er okkur boðið að ganga undir vald Guðs sem Kristur birtir okkur.
Þetta mikla drama föstunnar og páskanna er einnig táknmynd um átök góðs og ills í heiminum. Þar sjáum við svikin, fordómana og lýðskrumið ná undirtökunum í glímunni við það góða, fagra og fullkomna þegar Jesús var dæmdur og líflátinn. En hið illa nær ekki að hrósa sigri vegna þess að á páskum þá reisti Guð Jesú upp frá dauðum og þá er sungið um sigurhátíð sem er bæði sæl og blíð.
Við getum líka séð þetta drama í lífi einstaklinga. Í okkar eigin lífi með margvíslegum hætti og með ýmsu móti. Öll eigum við okkar erfiðu stundir eins og Jesús í grasgarðinum og öll upplifum við brigsl, svik og vonbrigði með samferðafólk okkar og jafnvel vini eins og Jesús sem Júdas sveik með kossi og eins þegar lærisveinarnir flúðu af hólmi á örlagastundu.
En boðskapur páskanna er m.a. sá að við eigum ekki að láta hugfallast. Við eigum ekki að nema staðar í grasgarðinum eða á Golgatahæð – við eigum að halda áfram. Við eigum að líta upp og treysta því að úr muni rætast og sigur muni fást. Á eftir föstudeginum langa kemur páskadagur. Það er eins víst og að á eftir vetri mun vorið leggja að landi og sumarið koma með birtu og yl.
Og meðan ég hripa niður þessar hugleiðingar þá les ég á Deiglunni og heyri í útvarpi árvissar kvartanir og fréttir af þeim skorðum sem skemmtanalífi eru enn settar á þessum hátíðsdögum. Það er ekki talið nútímalegt eða sérlega frjálslegt að bannað skuli að hafa opna skemmtistaði eða kvikmyndahús á föstudaginn langa og páskadag. Ég man þá tíð að föstudagurinn langi bar nafn með réttu í barnshuganum þegar ekkert mátti gera og í útvarpi allra landsmanna voru endalausar symfóníur og fúgur eftir Bach ásamt guðsorði úr kirkjum landsins. Þetta hefur breyst mikið en ég er ekki frá því að ég sakni þessara hljóðu og kyrru daga þegar maður gat hvílst, lesið og hlustað án þess að óttast það að vera að missa af einhverju. En núna skiptir öllu að „the show must go on.“
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008