Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart þegar Seðlabankinn ákvað að lækka vexti í síðustu viku. Ég stóð í þeirri trú að bankinn myndi bíða með lækkun vaxta þar til í ljós kemur hvort ASÍ segir upp núgildandi kjarasamningum.
Það er deginum ljósara að stærsta ógnin sem steðjar að verðstöðugleika á næstu misserum er uppsögn kjarasamninganna. Ef samningunum er sagt upp mun Seðlabankinn þurfa að hækka vexti upp úr öllu valdi (og þar með skapa umtalsvert atvinnuleysi) ef hann ætlar að koma í veg fyrir víxlhækkun launa og verðlags.
Skynsemi þess að lækka vexti nú ræðst þess vegna af því hvort kjarasamningunum verður sagt upp. Að því gefnu að samningunum verði ekki sagt upp sýnist mér að rök Seðlabankans fyrir lækkun vaxta nú standist. Þ.e. hærri raunvextir að undanförnu, skýr merki um hjöðnun ofþenslu, mun minni útlánavöxtur, versnandi efnahagshorfur og vaxtalækkanir í viðskiptalöndunum benda til þess að lækkun vaxta nú sé skynsamleg.
Ef við hins vegar gerum ráð fyrir því að samningunum verði sagt upp og samið verði um auknar launahækkanir horfa hlutirnir öðruvísi við. Þá hefði að öllum líkindum verið skynsamlegra fyrir bankann að lækka ekki vexti nú. Lækkun vaxta nú mun hægja á hjöðnun þeirrar þenslu sem enn einkennir hagkerfið. Hagkerfið mun því vera stöndugra í febrúar en án vaxtalækkunarinnar. Ef kjarasamningunum verður sagt upp leiðir þetta einungis til þess að nauðsynleg viðbrögð bankans þá verða enn hvassari en ella.
Það er raunar með ólíkindum að verkalýðshreyfingin velti fyrir sér að segja upp þessum samningum. Uppsögn mun leiða til þess að annað af tvennu gerist. Ef Seðlabankinn aðhefst ekkert munu launahækkanirnar á skömmum tíma fara út í verðlagið. Þær munu því í raun skerða hag launþega þar sem þær leiða til aukinnar verðbólgu án þess að hækka raunlaun. Ef hins vegar Seðlabankinn grípur í taumana munu afleiðingar launahækkananna vera aukið atvinnuleysi. Þær munu því bæta hag þeirra sem halda vinnunni á kostnað þeirra sem missa vinnuna. Því spyr maður sig hvað ætli vaki fyrir verkalýðshreyfingunni þegar hún veltir fyrir sér að segja samningunum upp.
Af ofangreindu er ljóst að með því að lækka vexti nú er Seðlabankinn í raun að veðja á að kjarasamningunum verði ekki sagt upp. Við skulum vona að það verði raunin.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009