Íslandsbryggjuróni

Íslandsbryggjurónarnir eru ákaflega góðir rónar, kannski þeir bestu í heimi. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að koma þeim betur fyrir.

Danir eru ekkert að stressa sig á hlutunum. Á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn er ákaflega gott að búa. Hér er allt til alls, barnaskóli, leikskóli, kjörbúð, kaupmaður á horninu og svo mætti lengi telja. Í rauninni er þetta eins og sérstakur bær í stórborginni, hálfgerður Hafnarfjörður, nema með stærri húsum.

Göturnar bera íslensk nöfn og það er gaman að ganga niður Reykjavíkurgötu og fá sér einn kaldan á hverfiskránni. Reyndar eru þær margar því svo virðist sem dágóður hópur manna hafi fátt annað að gera en að sitja að sumbli allan daginn. Nú verður ómenntaður íslenskur almúgi að átta sig á að hér er ekki um hefðbundna róna að ræða. Nei, þetta eru sannkallaðir klassarónar sem allir bæir væru stoltir af að eiga. Þess vegna hafa borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn náðsamlegast byggt skýli fyrir daglega bjórdrykkju.

Rónarnir safnast saman snemma á morgnana, yfirleitt í kringum 7 til að fá sér morgunsopann, sem teygist oft fram eftir degi. Þessir ágætu menn gera ekki flugu mein það mega þeir eiga og reyndar er ákaflega heimilislegt að vakna við gítarspil og ættjarðarljóð um átta leitið. Börnin taka þessu vel þegar þau ganga í skólann og mörg þeirra dreymir um að verða Íslandsbryggjurónar þegar þau verða stór.

Nú hugsa örugglega margir með sér, er ekki bara ágætt að til sé staður fyrir blessaða mennina? Er ekki hentugra að hafa þá á einum stað þar sem þeir geta setið við borð og farið á klósett í skálanum? Jú, auðvitað má færa góð rök fyrir því en staðsetningin er hins vegar stórfurðuleg. Rónareiturinn er nefnilega hluti af gæslu- og íþróttavelli hverfisins þar sem börn og unglingar leika sér alla daga. Þetta er kannski sambærilegt við það að Reykjavíkurborg kæmi fyrir drykkjuskála í Laugardalnum.

Það er þess vegna sem ég hóf pistilinn á því að segja að Danir væru ekkert að stressa sig á hlutunum. Þeim finnst fullkomnlega eðlilegt að sameina börn, unglinga og róna á einni lóð þar sem allir eyða deginum saman. Var nú ekki hægt að koma rónunum fyrir einhvers staðar annars staðar? Áfengisdrykkja barna og unglinga í danmörku er meiri en í nokkru öðru evrópulandi og einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því.

Íhaldsami Íslendingurinn er kannski bara að gera úlfalda úr mýflugu. Hvað með það þótt kennarinn fari út í frímínútur með krökkunum og fái sér sígó og fólkið á skóladagvistinni reyki innan um krakkana? Þetta er bara svona í Danmörku. En mikið óskaplega er ég feginn að þetta er ekki svona á Íslandi.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)