Þegar þetta er ritað er mannfall meðal óbreyttra íraskra borgara talið vera milli 1.000 og 2.000 manns. Sennilega hafa einhverjir tugir þúsunda Íraskra hermanna verið drepnir af hersveitum Breta og Bandaríkjamanna, sem hafa sjálfir misst milli 100 og 200 hermenn. Mikið hefur verið deilt um réttmæti þessa stríðs og er ekki markmiðið að eyða orku í slíkar deilur hér, heldur að skoða framkvæmd stríðsins í samanburði við önnur stríðsátök.
Fyrir stríðið höfðu ýmsir áætlað borgaralegt mannfall og gerðu flestir ráð fyrir að yfir 10.000 óbreyttir borgarar myndu láta lífið. Nú er mjög líklegt að um mun lægri tölur verði að ræða, en engu að síður er rétt að setja þá tölu í samhengi. Talið er að á síðustu tíu árum hafi um 1.300.000 manns látist vegna viðskiptabannsins á Írak, eða rétt um 130.000 á ári. Það er því ljóst að upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að jafnmargir óbreyttir borgarar féllu eins og láta lífið á einum mánuði vegna viðskiptabannsins. Nú stefnir jafnvel í að stríðið jafngildi einni viku viðskiptabanns.
Engu að síður þykir þetta of mikið. Ýmsir hafa sett þetta í samhengi við árásirnar 11. september og fordæmt Bandaríkjamenn fyrir að meta þá 3.500 manns sem létust þar margfalt á við þá íraka sem nú láta lífið í stríði Bandaríkjanna „gegn hryðjuverkum“. Þeir sem slíkt gera falla í þá gildru að telja sér trú um að evrópskir andstæðingar stríðsins meti öll mannslíf jafnmikils. Það er þó ekki svo.
Frá árinu 1980 hafa nokkur stríð kostað yfir 1.000.000 mannslíf. Það skelfilegasta er enn í gangi, en það er stríðið í Kongó, sem líklega hefur kostað yfir 4.000.000 mannslíf, en önnur stríð hafa verið lítið skárri. Í borgarastyrjöldinni í Súdan er talan um 2.000.000, stríðið í Afganistan (það fyrra, ekki það sem brast á í kjölfar 11. september) kostaði um 1.500.000 mannslíf, í Eþíópíu féll annar eins fjöldi, og í Íran-Írak stríðinu féllu um 1.000.000 manns. Fjöldamorðin í Rwanda komast ekki á listann, enda féllu þar „aðeins“ 800.000 manns. Ef skoðuð væru þau stríð þar sem meira en 100.000 manns hafa fallið yrði listinn mun lengri.
Mannfallið í Írakstríðinu sem nú hillir undir endann á bliknar í samanburði við þessi átök, sem eiga það sameiginlegt að hafa nánast enga athygli hlotið á vesturlöndum. Þjáningar Palestínumanna blikna líka, en þar hafa rúmlega 3.000 manns fallið á síðustu tíu árum.
Það er því ekki skeytingarleysi Bandaríkjanna um hag Palestínumanna og Íraka sem er sérkennilegt í þessu samhengi, heldur að við vesturlandabúar skulum taka þessa tvo hópa á svo áberandi hátt fram yfir aðra kynþætti og þjóðir sem búa langt í burtu.
Tvær skýringar koma upp í hugan. Ein er sú að Íraskur almenningur er með Íraksstríðinu orðinn peð í pólítískum slag Bandaríkjanna og Evrópusambandsríkja um það hver ræður á alþjóðavettvangi. Á meðan milljón Írakar dóu fyrir tilstuðlan viðskiptabanns sem vesturveldin höfðu samþykkt og stóðu að í sameiningu var flestum sama, en þegar Bandaríkjamenn drepa tvöþúsund Íraka án þess að fá uppáskrift hjá Frökkum fer allt í háaloft.
Hin skýringin er sú að við vesturlandabúar teljum það ekki okkar mál þegar „annað fólk“ drepur hvort annað, eða þá deyr af sjálfsdáðum úr hungri. En þegar „við“ erum að drepa einhvern gerum við meiri kröfur. Þessi skýring er ekki jafnóhugnaleg og sú fyrri, og gæti að hluta skýrt samúðina sem Palestínumenn hafa á vesturlöndum. Ísraelsmenn leggja jú mikla áherslu á að þeir séu vestrænt lýðræðisríki eru því samkvæmt þessari kenningu undir smásjánni. Því miður skýrir þessi kenning ekki hvers vegna viðskiptabannið á Írak vakti ekki meiri athygli, en þó gæti hugsast að okkur hafi fundist fórnarlömb þess vera að deyja „af sjálfsdáðum“.
Stríð er alltaf harmleikur og því miður er Íraksstríðið ekki síðasti harmleikurinn. Það er vonandi að þær styrjaldir sem munu brjótast út í framtíðinni verði líkari Íraksstríðinu en borgarastríðinu sem nú geisar í Kongó. Þótt deilt hafi verið um óhóflegan fréttaflutning af Íraksstríðinu er ljóst að hann hefur knúið Bandaríkjamenn til að leggja mikið á sig til að hlífa óbreyttum borgurum. Slíkur þrýstingur er af hinu góða og rétt að gera miklar kröfur til þeirra sem telja sig knúna til að grípa til vopna gegn annarri þjóð.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020