Þegar styttan af Saddam var felld í miðborg Baghdad fóru blendnar tilfinningar um heiminn. Flestir fögnuðu vissulega því sem mætti túlka sem endalokum harðstjórnar Saddams Hussein en á sama tíma spurðu margir, hvað gerist næst? Nú tekur við uppbygging Íraks sem er margra ára verkefni. Bretar og Bandaríkjamenn geta ekki gert það einir, Írakar og Arabaheimurinn allur verður að taka þátt.
Þjóðir sem ekki tóku ábyrgð á eigin ákvörðunum í Öryggisráði sameinuðu þjóðanna hafa síðustu daga keppst um að fagna sigri Bandamanna á Saddam. Jafnframt hafa margir boðist til að taka þátt í uppbyggingunni undir fána Sameinuðu þjóðanna. Þótt nauðsynlegt sé að sem flestir taki þátt í starfi næstu mánaða hlýtur sú spurning að vakna hvort Frakkar og Rússar séu ekki bara að tryggja olíuhagsmuni sína í Flóanum?
Yfirburðir herafla Breta og Bandaríkjamanna eru óhuggulegir. Leifturstríð fékk nýja merkingu með skriðdrekahersveitum sem í skjóli algjörra yfirburða í lofti gátu farið ótrúlega hratt yfir. Hermenn Saddams gripu ekki til þess ráðs nema í litlum mæli að hverfa inn í borgir og berjast án einkenninsbúninga. Mannfall óbreyttra borgara hefði orðið mun meira í kjölfarið á slíkum aðferðum.
Stríðinu er þó alls ekki lokið. Heimabær Saddams er næsta verkefni en jafnvel er talið að um 80.000 hermenn verji bæinn. Auk þess má búast við því að fámennir skæruliðahópar muni næstu árin ráðast gegn alþjóðlegu herliði sem og nýrri stjórn Íraks. Með markvissum aðgerðum og uppbyggingarstarfi er þó hægt að lágmarka slíkar árásir.
Hvað tekur við í Írak er óljóst á þessari stundu. Ógnaröld ríkir í landinu en lögregla hefur ekki verið starfhæf síðustu vikur. Reynsla bresku hersveitanna af löggæslu frá Norður-Írlandi getur komið sér vel enda nauðsynlegt að tryggja það að friður komist á sem fyrst og að nauðsynleg hjálpargögn berist fólkinu. Matur, vatn og rafmagn ætti því að vera forgangsverkefni næstu vikna ásamt því að koma í veg fyrir frekari þjófnaði. Það krefst þess hins vegar að stór hluti heraflans fari í önnur verkefni en eiginlega framrás og beinan hernað.
Þótt mannfall í stríði sé ávallt óæskilegt verður varla hjá því komist. Óvíst er hversu margir hefðu horfið í Írak ef ógnarstjórn Saddams hefði fengið að halda áfram óáreitt eins og margir vildu. Við hljótum þó að fagna því í sameiningu að búa í landi þar sem fólk er frjálst til að vera á móti aðgerðum stjórnvalda. Þetta frelsi er dýrmætara en við áttum okkur á, frelsi sem allir ættu að hafa, frelsi sem íraska þjóðin mun öðlast innan skamms.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005