Hvalveiðar

Um daginn var ég þátttakandi í smá markaðsrannsóknarverkefni, spurðir voru 50 einstaklingar. Ein spurningin var hvort hefja ætti hvalveiðar. Í ljós kom að mikill meirihluti var fylgjandi því að hefja ætti hvalveiðar.

Um daginn var ég í verkefni í markaðsrannsóknum, hluti verkefnisins var að framkvæma litla markaðsrannsókn. Hópurinn mátti ákveða eina spurningu óháð efninu og var ákveðið í léttu spaugi að spyrja að því hvort fólk væri hlynnt eða andvígt að Íslendingar hæfu hvalveiðar.

Könnunin fór fram í Hagkaup Smáralind og var framkvæmd þannig að einstaklingar á leiðinni inn í búðina voru spurðir nokkra spurninga og að lokum voru þeir spurðir:

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Íslendingar hefji hvalveiðar?

Skemmst er frá því að segja að 47 svöruðu að þeir væru hlynntir því að hefja hvalveiðar, einn var óviss og einungis tveir voru andvígir því að við hæfum hvalveiðar. Vandlega var þó passað upp á að vera ekki hlutdrægur þegar spurningin var spurð.

Nú var þetta ekki nein formleg rannsókn, en hins vegar er óhætt að segja að niðurstaðan hafi komið mér á óvart. Raddir þeirra sem hafa verið á móti hvalveiðum hafa verið nokkuð háværar undanfarið í fjölmiðlum og það er orðið nokkuð langt síðan Íslendingar veiddu síðasta hvalinn, þannig að ég gerði ráð fyrir að fleiri væru mótfallnir því að hefja veiðar.

Margir sem voru spurðir létu stóryrtar yfirlýsingar falla í kjölfarið á svarinu sínu, eins og hefja ætti hvalveiðar strax í dag og við ættum ekki að láta erlenda hagsmunahópa hafa áhrif á okkar veiðar.

Eins og allir vita hafa íslensk stjórnvöld verið að færa sig í áttina að því að hefja hvalveiðar, þótt engin formleg ákvörðun hafi verið tekin eða settar hafi verið dagsetningar. Sjávarútvegsráðherra og ráðuneytið hafa verið að vinna í þessum málum og er skemmst að minnast inngöngu okkar í hvalveiðiráðið, með hjálp frænda okkar.

Þótt þetta hafi verið lítil og óformlega könnun er greinilegt að þjóðin stendur að baki þeirri vinnu sem sjávarútvegsráðherra hefur verið að stefna að. Gaman væri þó að sjá stærri könnun þar sem stuðningurinn væri kannaður nánar.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.