Nú stendur til að setja upp hér á landi leiksýninguna „Puppetry of the Penis“ þar sem tveir leikarar fara með gamanmál og nota m.a. kynfæri sín í þeim tilgangi. Þeir stilla m.a. kynfærunum sínum upp á ýmsan hátt, t.d. í formi pylsu, kanínu og meira að segja seglbrettis! Þetta væri þó varla fréttnæmt nema vegna þess að Lögreglustjórinn í Reykjavík bannaði fyrirhugaðar sýningar á verkinu. Lögreglustjóri rökstuddi ákvörðun sína á þann veg að sýningin væri utan við þann siðgæðisramma sem miða ætti við samkvæmt íslenskum rétti. Ákvörðun embættisins var blessunarlega kærð til dómsmálaráðuneytisins sem felldi hana úr gildi.
Dómsmálaráðuneytið benti á þá augljósu staðreynd að það eitt að koma nakinn fram yrði ekki talið ólöglegt enda væri nektardans í atvinnuskyni leyfður hér á landi. Það yrði að gæta jafnræðis og þótt færa mætti rök fyrir því að sýningin gæti talist dónaleg væru ekki efni til að banna hana.
Viðhorf embættis Lögreglustjórans í Reykjavík er dæmigert fyrir það tvöfalda siðgæði sem er víða ríkjandi varðandi nekt kvenna og karla. Það er allt í lagi að konur komi fram naktar og kynfæri þeirra sjáist en öðru máli gegnir um kynfæri karla. Sýning á þeim er „siðferðislega röng“ eða „dónaleg“. Þetta viðhorf sést út um allt. Á meðan allsnaktir kvenlíkamar verða sífellt algengari og markaðsvæddari á nánast öllum sviðum þjóðfélagsins eru kynfæri karla á sama tíma forboðið feimnismál.
Þetta tvöfalda siðgæði teygir anga sína víða. Sem dæmi má nefna dóm Hæstaréttar nr. 1103/1990 í máli Stöðvar tvö en þar hafði stöðin verið ákærð vegna sýninga á dönskum bláum myndum. Í dómi Hæstaréttar er farið vandlega yfir hvaða atriði í myndunum flokkist undir leyfilega erótík og hvaða atriði flokkist undir ólöglegt klám. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að af 16 atriðum í kvikmyndunum „Í nautsmerkinu“ og „Í tvíburamerkinu“ flokkuðust 14 undir klám. Þau tvö atriði sem Hæstiréttur taldi að væru erótísk list voru eingöngu atriði þar sem konur stunduðu kynlíf með öðrum konum. Þegar karlmenn voru komnir í spilið taldi Hæstiréttur að um klám væri að ræða!
Þetta er hins vegar langt frá því að vera eingöngu landlægt vandamál hér á landi. Þetta ástand sést ljóslifandi í þeim vestrænu menningarafurðum sem berast hingað til lands. Allsnaktar konur eru þar sjálfsagður hlutur en kynfæri karla sjást nánast aldrei nokkurn tímann. Ef það gerist þá er það yfirleitt í evrópskum myndum sem eru taldar mjög „listrænar“ eða „ögrandi“. Þessi reðurfælni er svo yfirgengin að jafnvel í ljósbláum bandarískum myndum, sem ganga eðli málsins skv. eingöngu út á kynlíf, eru kynfæri karla hvergi sjáanleg. Afþreyingarefni hefur mjög skoðana- og tískumyndandi áhrif og ljóst að fóbían í Hollywood er ekki að hjálpa til við að eyða þessu tvöfalda siðgæði.
Þetta tvöfalda siðgæði er meinlegt því engin skynsamleg rök eru fyrir því að aðgreina kynin á þennan hátt. Sömu viðhorf ættu að sjálfsögðu að eiga við um nakta einstaklinga burt séð frá kyni þeirra, annað er helber hræsni. Það er náttúrulega lítið hægt að gera við þessari lífseigu siðferðislegu ósamkvæmni hjá fólki en þegar hún er farið að dúkka upp í embættisfærslum lögreglu og í dómum Hæstaréttar þá þarf að spyrna við fótum. Úrskurður dómsmálaráðueytisins gerði það og var skref í rétta átt. Hann sendir þau skilaboð út í þjóðfélagið að engin siðferðislegur munur sé á nekt karla og kvenna. Hvort þjóðfélagið muni trúa því? Það er því miður alls óvíst!
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020