Á föstudaginn hefst fyrsti árlegi landsfundur Samfylkingarinnar. Á vefsíðunni www.samfylking.is hafa verið birt drög að stjórnmálaályktun þessa nýja stjórnmálaflokks. Nú er rétt að taka fram að þau hafa ekki verið samþykkt og því ekki staðfest stefna, en væntanlega eru þau að stærstum hluta í anda flokksins enda að öllum líkindum afrakstur mikillar málefnavinnu fjölda flokksmanna.
Í inngangi að ályktuninni segir að áhersla sé lögð á þrjár grunnstoðir samfélagsins sem saman myndi hinn „gullna þríhyrning”, megininntak samfélagssýnar jafnaðarmanna. Þessar stoðir eru kröftug menntastefna, framsýn efnahagsstefna og góð velferðarþjónusta. Við lestur draganna staldraði ég nokkuð við kaflann um hina framsýnu efnahagsstefnu, enda má gera ráð fyrir að gyllingin í þríhyrninginn góða komi þaðan. Í þessum kafla eru tilteknir átta þættir sem Samfylkingin ætti að beita sér fyrir. Skoðum aðeins tvo þeirra.
Þetta er fyrsti aðgerðarþátturinn sem er nefndur:
Hér vakna strax tvær spurningar. Sú fyrri er hvers vegna á ekki að lækka skatta stórra fyrirtækja og hin síðari hvar mörkin eru dregin milli stórra og meðalstórra fyrirtækja. Ég átta mig ekki á því hvort við er átt að ekki sé nauðsynlegt að tryggja samkeppnishæfni stórra fyrirtækja í síbreytilegu umhverfi alþjóðavæðingarinnar eða hvort samfélagssýn jafnaðarmanna fallist bara ekki á að það sé gert. Eftir nokkrar vangaveltur áttaði ég mig á að hér hlýtur að vera átt við lítil og meðalstór fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða (enda verið að ræða umhverfi alþjóðavæðingarinnar) en samkvæmt flestum alþjóðlegum mælikvörðum falla öll íslensk fyrirtæki undir þessa tvo flokka.
Þriðji liðurinn á þessum sama aðgerðalista var ekki síður athygliverður:
Þrátt fyrir að vera í þann mund að ljúka háskólanámi í viðskiptafræðum átta ég mig ekki alveg á þessu. Það er þó hugsanlegt að ég hafi bara misst af fyrirlestrinum þar sem fjallað var um kvennafyrirtæki. Vinstrimenn og konur á Alþingi hafa gert greinarmun á þjónustufyrirtækjum og gróðafyrirtækjum en ég hef enn ekki heyrt þau minnast á kvennafyrirtæki og karlafyrirtæki. Hvort átt er við að fyrirtækin séu í eigu kvenna, undir stjórn þeirra eða þær vinni öll störfin er mér ekki ljóst. Mér er þó til efs að hér sé átt við fyrirtæki sem grundvallast af sérstakri þjónustu unninni af konum, eins og nektardansstaðir eða jafnvel vændishús. Þótt það sé vissulega jákvætt og eðlilegt að konur taki þátt í atvinnu- og viðskiptalífinu til jafns við karla sé ég ekki að þörf sé á sérstökum aðgerðum til „jákvæðrar” mismununar á þessu sviði.
En ég stoppaði í miðju kafi og hér kemur síðari hluti þessa atriðis, rúsínan í pylsuendanum:
Nú kannast ég ekki við þessa hagfræðikenningu. Þótt maður gæti skilið að með „í höndum kvenna” sé átt við kveneigendur eða stjórnendur rennir þetta með hagvöxinn vissulega nokkrum stoðum undir þær hugmyndir að með kvennafyrirtækjum sé átt við nektardansstaði, enda virðast þeir mala gull. Í framhaldi af þessu datt mér í hug hvort lækka mætti skuldastöðu heimilanna með að fjölga heimavinnandi húsmæðrum í sama hlutfall og í Japan.
Raunar hafa ýmsar kannanir sýnt að fyrirtæki sem konur stofna gangi hlutfallslega betur samkvæmt ýmsum mælikvörðum en fyrirtæki sem karlar stofna, þau verði til að mynda síður gjaldþrota. Skýringin sem helst hefur verið nefnd fyrir þessu er að konur séu síður áhættuhneigðar en karlar og hefji síður áhættusamann rekstur. En lausnin við þessu er að sjálfsögðu ekki bara að senda konur á námskeið heldur að umhverfið sem íslensk fyrirtæki starfa í sé traust og afskipti hins opinbera séu með minnsta móti.
Hlutfall kvenna í atvinnurekstri er nýtt hagstjórnartæki fyrir mér. Ég er að hugsa um að fara að rifja betur upp það sem ég lærði í viðskiptafræðinni og það sem sagt hefur verið þar um Samfylkinguna og efnahagsmál.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021