Þeir sem borga í lífeyrissjóði, sem reknir eru af samtökum launafólks og atvinnurekenda, geta engin áhrif haft á stjórnun þeirra. Ævisparnaður flestra landsmanna liggur annars vegar í eigin íbúðarhúsnæði, en hins vegar í inneign í þessum lífeyrissjóðum. Saman eiga landsmenn hundruði milljarða í lífeyrissjóðum, en þeir hafa engin áhrif á meðferð eða vörslu þess fjár.
Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir á hlut- og verðbréfamörkuðum hér á landi og þeim ráðstöfunum fylgja gífurleg völd en líka mikil ábyrgð. Fréttir í dagblöðum undanfarna mánuði sýna að margir sjóðir hafa tapað stórfé á fjárfestingum liðinna ára. Ekki hefur þó farið mikið fyrir fréttum af því að stjórnendur sjóðanna séu látnir axla ábyrgð á því tapi. Ábyrgðina axla hinir áhrifalausu sjóðsfélagar, því tapið hlýtur að takmarka getu lífeyrissjóðanna til að greiða þeim lífeyri þegar fram í sækir. Ennfremur sýna fréttir af átökum um stórfyrirtæki landsins að þar eru fulltrúar lífeyrissjóða orðnir áhrifamiklir aðilar.
Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur löngum barist fyrir því að almennir sjóðsfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna, en í dag eru það samtök atvinnurekenda og launþega í sameiningu. Nú hafa þau tíðindi gerst fyrst á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og viku síðar á vorþingi Samfylkingarinnar að tveir af áhrifamestu þingmönnum þessara flokka þau Geir H. Haarde og Jóhanna Sigurðardóttir hafa bæði lýst því yfir í fyrirspurnartímum þinganna að þau munu beita sér fyrir því að sjóðsfélagar fái aukin áhrif á stjórn lífeyrissjóða.
Þetta eru stórtíðindi, því annar hvor þessara einstaklinga, ef ekki báðir eru líklegir til að verða áhrifamiklir ráðherrar í næstu ríkisstjórn. Aukið lýðræði í vali á stjórnum lífeyrissjóða er eitt helsta réttlætismál okkar tíma. Að örfáir einstaklingar ráði ævisparnaði þjóðarinnar án hennar eigin afskipta samræmist ekki nútímalýðræðiskröfum.
- Orkuveitan fer inn á ný svið í íslensku atvinnulífi - 1. júní 2005
- „Í dag er mikill gleðidagur hjá íslenskum neytendum“ - 28. júlí 2003
- Hvort á að stytta framhaldsskólann eða grunnskólann? - 26. maí 2003