Þann 23. mars síðastliðinn voru Óskarsverðlaunin afhent í 75. skipti og eins og svo oft áður voru ekki allir sammála ákvörðunum akademíunnar bandarísku. Hún hefur átt það til að gera alvarlegar skyssur þegar kemur að útdeilingu þessara eftirsóttu verðlauna og benda menn í því sambandi á þegar Rocky var tekin fram yfir Taxy Driver árið 1976.
Venjulega eru menn ekkert að velta sér upp úr því hver hreppir hnossið fyrir bestu heimildarmynd. Það er jú nauðsynlegt að hafa þær með í keppninni, rétt eins og verðlaunin fyrir bestu sviðsmynd. Eitthvað verður fólk að horfa á á milli auglýsinga. Telja verður þó að akademían hafi orðið á stórkostleg mistök þegar hún ákvað að veita mynd Michaels Moore, Bowling For Columbine, heimildarmyndaverðlaunin í ár.
Í kvikmyndinni reynir Moore að komast að því hvernig á því standi að fleiri Bandaríkjamenn falla fyrir byssukúlum en í öðrum vestrænum ríkjum, og byggir myndina upp í kringum voveiflegan atburð sem átti sér stað í bænum Littleton í Colorado árið 1999, þegar tveir nemendur Columbine menntaskólans myrtu nokkra samnemendur sína og einn kennara áður en þeir sviptu sig sjálfa lífi.
Moore er snillingur í því að spila á tilfinningar áhorfandans og eru nokkur atriði í myndinni mjög svo átakanleg. Á öðrum stöðum í myndinni nýtir hann sér óborganlegt skopskyn sitt til að koma málstaðnum á framfæri. En þar liggur hundurinn einmitt grafinn. Moore er ekki að leita svara við spurningu, heldur er hann að koma á framfæri pólitískum skoðunum sínum. Moore hefur ekki búið til heimildarmynd heldur áróðursmynd, og virðist lítið hafa velt fyrir sér staðreyndum, eða sannleikanum almennt, við gerð myndarinnar.
Fyrsta atriði myndarinnar, og líklega það frægasta, er þegar hann gengur inn í banka í Michigan, opnar bankareikning og labbar út með byssu. Þetta atriði var sett á svið, enda tók það Michael a.m.k. þrjá daga að fá byssuna og þurfti hann að láta um 5000 bandaríkjadali af hendi rakna til að fá hana. Í myndinni heldur hann því fram að verksmiðja Lochead-Martin í Littleton framleiði kjarnavopn, og lætur að því liggja að þar megi leita ástæðunnar fyrir morðæðinu í Columbine. Hið sanna er að verksmiðjan í Littleton framleiðir eldflaugar fyrir geimferðastofnunina NASA og hefur ekkert með gereyðingarvopn að gera.
Hvergi er vanvirðing Moores fyrir sannleikanum meira áberandi en þegar kemur að meðferð hans á gömlu kempunni Charlton Heston, forseta samtaka byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA. Í frásögn Moores af fundi samtakanna í Denver skömmu eftir Columbine atvikið, slítur hann ræðu Hestons algerlega úr samhengi, slengir saman setningum tvist og bast og bætir meira að segja við setningu úr annarri ræðu sem Heston hélt í Suður-Karólínu ári seinna (hálsbindi Hestons skiptir um lit)!
Í lokaatriði myndarinnar er sýnt frá heimsókn Moores til Hestons, sem þá var farinn að sýna merki Alzheimersjúkdómsins sem hann er þjakaður af. Í því atriði er Heston látinn líta út fyrir að vera hinn versti kynþáttahatari og mannhundur. Þetta er sami Heston og gekk við hlið Sr. Martins Luthers Kings árið 1963 til Washington, sami Heston og vann ötullega að því að brjóta niður kynþáttamúrana í Hollywood á sjötta og sjöunda áratugnum, sami Heston og árið 2001 hlaut heiðursverðlaun samtakanna Congress of Racial Equality, sem kennd eru við Sr. King, fyrir þátt hans í réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Mannorð þessa manns reynir Moore að sverta í því skyni að koma höggi á samtökin sem hann er í forsvari fyrir.
Þetta eru ekki vinnubrögð heimildarmyndagerðarmanna, heldur vinnubrögð siðlausra áróðursmeistara. Þau á ekki að verðlauna.
- Vaxtarverkir litla bróður - 1. október 2004
- ESB og Almættið - 22. ágúst 2004
- Ljúfviðrið og lopapeysan - 13. ágúst 2004