Bandaríkin eru merkilegt ríkjasamband og eðlilegt að fólk dáist að þeim. Það er eðlilegt að menn líti upp til sinna fyrirmynda og veiti þeim móralskan stuðning hver á sínum vettvangi. Það er hins vegar ótrúlegt hvað sumir eru tilbúnir að leggja á sig við hvolfa við hefðbundinni rökfræði, afneita almennum siðferðisgildum og leggjast í tímaferðalög til þess einungis að reyna að hnoða saman rökum fyrir hinum og þessum geðþóttaákvörðunum Bandaríkjastjórnar.
Það kæmi mér ekki á óvart ef Bandaríkin mundu nota kjarnorkuvopn í Írak að fram kæmu menn sem tilbúnir væru að rökstyðja þá ákvörðun. Þeir mundu halda því fram að hún hefði í raun bjargað mannslífum því miklu fleiri hefðu geta látist í „beinum“ átökum. Þetta væri nú lítil tala miðað við alla þá sem látist höfðu fyrir Saddams hendi o.s.frv.. Auðvitað mundu þessir menn harma mannfall meðal óbreyttra borgara en „slíkt fylgir nú alltaf stríði“. Og að sjálfsögðu „gera herir bandamanna allt til að lágmarka fall meðal óbreyttra borgara“ ólikt mannætuherjum Saddams sem skytu á börn sér til skemmtunar.
En komum okkur að aðalatriði málsins – stríðinu í Írak. Aðdragandi þess stríðs er ekki ósvipaður aðdraganda stríðsins í Afganistan. Í upphafi snerist stríðið í Afganistan um að koma höndum yfir Al’Kaida leiðtoga og uppræta starfsemi samtakanna. Þegar illa gekk að ná því markmiði settu menn upp málið þannig að verið væri að frelsa þjóð undan ógeðslegri harðstjórn. Það sama er að gerast nú. Í upphafi snerist stríðið um gjöreyðingavopn Íraka. Nú þegar stríðið hefur staðið í hálfan mánuð og vísbendingar um þau vopn hafa ekki fundist (eða ekki gerðar opinberar) er aftur allri athygli beint að „frelsun íraskrar þjóðar“.
Það er auðvitað gott mál að frelsa þjóð undan harðstjórn. Slíkt verður þó að gerast með löglegum hætti og ekki án þess að breiður alþjóðlegur stuðningur sé til staðar. Bandaríkjamenn tóku þá afstöðu að Sameinuðu Þjóðirnar höfðu brugðist vegna þrjósku ríkis með neitunarvald og því þyrfti að grípa til aðgerða með þessum hætti.
En hvaða þrjóska ríki er þetta sem hefur með illum ráðum ákveðið að lama alþjóðasamfélagið. Þetta er væntanlega eitthvað ríki sem hefur annarlegra hagsmuna að gæta, með stjórn sem hefur komist til valda með vafasömum hætti og hefur oft áður stofnað til vandræða með yfirgangi og leiðindum á alþjóðlegum vettvangi. Er þetta Kína? Sýrland? Sovétríkin? Nei, kæru lesendur ríkið sem um ræðir heitir Frakkland og er stjórnað af miðjuhægrimönnum. En eflaust lætur franska stjórnin stjórnast af pópúlisma í þessu máli enda aðeins 4 ár í næstu kosningar og því mikið í húfi.
Nei, það segir mér enginn að Frakkar séu einhverjir harðhausar sem ekki sé hægt að tala til ef málefnið er gott. Ég man a.m.k. ekki eftir að Frakkar verið hingað til beitt neitunarvaldi sínu hægri og vinstri til þess eins að fólk tæki eftir þeim. Ætli staðreyndin sé ekki bara sú að Frakkar höfðu rétt fyrir sér: Enn var tími til að vinna að díplómatískri lausn að málinu. Enn var tími til að láta reyna á vopnaeftirlitið.
Þó að það sé ef til vill ágætt að losa sig við Saddam má ekki gera það á kostnað trúverðuleika Sameinuðu Þjóðanna. Hafi Frakkar verið á móti vopnabeitingu áttu menn að reyna tala þá til eða í versta falli bara að láta sig hafa það. Öryggisráðið á að vera stofnun sem ríkisstjórnir taka mark á. Ef að þau ríki sem hafa mest vald innan Ráðsins kjósa sjálf að hundsa það, hvernig eiga hin ríkin þá að taka alyktanir þess alvarlega?
Sameinuðu þjóðirnar eru ef til vill ekki nein frábær stofnun. Hins vegar held ég að sú heimsregla sem SÞ bjóða upp á sé betri en engin. Einhliða ákvarðanir um stríð færa okkur skrefi nær heimsstjórnleysi. Og þá fyrst mun allt fara til fjandans.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021