Einn allra furðulegasti fundur í stjórnmálasögu landsins er að baki. Hér er náttúrulega átt við landsfund Samfylkingarinnar sem var haldinn um helgina. Fundurinn ber öll merki þess að hafa verið skipulagður af forystu flokksins í mikilli móðursýki gagnvart eigin flokksmönnum.
Þar ber fyrst að geta þess að Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður flokksins með lófataki snemma í morgun í stað hefðbundinnar atkvæðagreiðslu. Það er erfitt að taka flokk alvarlega sem sýnir svona vinnubrögð. Þetta er eflaust í lagi hjá smáflokkum en hjá flokki sem telur sig vera frelsara vinstri manna og jafnoka Sjálfstæðisflokksins þá er þetta mjög veikt. Reyndar telur undirritaður að forysta Samfylkingarinnar viti að svona vinnubrögð sæmi ekki flokki eins og þau óska sér að Samfylkingin verði en flokksmönnum var einfaldlega ekki treyst í formannskosningu þrátt fyrir að Össur væri einn í framboði. Það er nefnilega hægt að tjá óánægju sína með með því að skila auðu eða kjósa einhvern annan t.d. Ingibjörgu Sólrúnu. Það geta allir verið sammála um að töluverður styrr hefur staðið um Össur sem formann og sagan mun að líkindum ekki dæma hann sem sterkan leiðtoga. Formannskosning hefði því getað rifið niður glansímyndina um hina fullkomnu sátt sem forystan er að reyna að sannfæra fjölmiðla um að hafi ríkt á þinginu.
Ágreiningurinn um nafn flokksins er einnig gott dæmi um ástandið en eins og flestir vita fór töluverður tími á þingi “sameinaðra jafnaðarmanna” í að deila um það. Reyndar er sú staðreynd að menn geti ekki einu sinni komið sér saman um nafn á flokknum ekki það furðulegasta við ágreininginn heldur ein af tillögunum um nafn. Ein tillagan var á þá leið að nafn flokksins verði gamla góða “Alþýðubandalagið”. Þrátt fyrir að tillagan sé saklaus við fyrstu sýn þá felur hún í sér tilræði við allar hugmyndir sem Samfylkingin byggist upp á vegna þess að með henni er í raun verið að stinga upp á fullkominni afturför í sameiningarferlinu. Forysta flokksins treysti sér greinilega ekki til að taka á ágreiningnum því nafnabaráttan var leyst með því að setja málið í nefnd sem skilar áliti á næsta ári! Við verðum því að bíða spennt í a.m.k. eitt ár í viðbót þangað til að við fáum að vita hvað barnið á að heita.
Það vekur einnig athygli að í kosningum til framkvæmdarstjórnar greiddu einungis 150 manns atkvæði. Til upplýsinga þá taka mun fleiri þátt í kosningu til stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna á SUS-þingum heldur en á fundi Samfylkingarinnar og er þó svipað snið á þingunum. Samfylkingin hefur fengið góðan tíma til að festa sig í sessi sem alvöru vinstri flokkur en þegar allt kemur til alls þá taka færri þátt heldur en hjá ungliðum Sjálfstæðisflokksins.
Mér er minnisstæð saga sem kom fram í þeirri stórgóðu kvikmynd La Haine en hún er svohljóðandi í lauslegri þýðingu.
Ungur maður stendur efst á háhýsi
og stekkur niður
Alla leiðina niður þá tautar hann
Það er ennþá allt í lagi
Það er ennþá allt í lagi
En það er ekki fallið sem skiptir máli
Heldur lendingin!
Undirritaður vill skora á alla að skoða heimasíðu Samfylkingarinnar og allt það gagnrýnislausa sjálfshól sem þar er að finna. Á heimasíðunni og af ummælum forystu Samfylkingarinnar í fjölmiðlum sést greinilega að það er ennþá allt í lagi hjá Samfylkingunni!
En það er ekki fallið sem skiptir máli
Heldur lendingin!
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020