Metnaður hinna minnimáttar

Ummæli landsliðsþjálfara Íslands fyrir leik Íslendinga og Skota um síðustu helgi voru „ummæli dagsins“ (quote of the day) í breska blaðinu The Guardian. Því miður þá segja ummælin sína sögu.

Síðastliðinn föstudag komst Ísland í heimspressuna, eins og oft er sagt. Orð sem Atli Eðvaldsson, landsliðsjálfari Íslands í knattspyrnu, lét falla í viðtali urðu tilefni háðungar í breska blaðinu The Guardian. Mörg blöð birta daglega það sem kallað er „quote of the day“ sem annað hvort eru merkilegar yfirlýsingar eða fáránlegar. Textinn i Guardian var eftirfarandi:

QUOTE OF THE DAY

„If we get three points that will be like winning the World Cup for us“ – Iceland manager Atli Edvaldsson pushes hyperbole to new extremes when asked about tomorrow’s big game at Hampden. It’s only Scotland, man.

Íslendingar töpuðu leiknum 2:1 eftir hörmulega frammistöðu í fyrri hálfleik en öllu skárri síðari hálfleik. Með sigrinum komust Skotar á topp riðilsins en Íslendingar sitja í næstneðsta sæti eftir þrjár umferðir.

Íþróttadeild Deiglunnar hefur mikinn metnað fyrir hönd íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Eins og fleiri batt deildin miklar vonir við að góður árangur næðist i undankeppni EM að þessu sinni, þar sem riðill okkar Íslendinga er óumdeilanlega í léttari kantinum.

Íslendingar hafa nú þegar tapað báðum leikjum sínum gegn Skotlandi en unnið slakt lið Litháa á heimavelli með afgerandi hætti. Fyrirfram var álitið að úrslitin í þessum fyrstu þremur leikjum myndu ráða miklu um framhaldið fyrir íslenska liðið – uppskeran er þrjú stig. Eðlileg niðurstaða hefði verið 7 stig; sigur heima gegn Skotum og Litháum og jafntefli við Skota á Hampden Park.

Við eigum eftir að mæta Þjóðverjum og Færeyingum heima og heiman, sex stig lágmark úr þeim fjórum viðureignum, og síðan útileik við Litháa, eitt stig þar hugsanleg. Íslenska liðið kemur því að líkindum til með að ljúka keppni í riðlinum með tíu stig.

Í síðustu undankeppni EM vorum við í riðli með heimsmeisturum Frakka, Rússum, Úkraínu, Armeníu og Andorra. Uppskeran úr þeim riðli var fimmtán stig. Enginn vafi leikur á því að Frakkland var þá með sterkara lið en Þjóðverjar nú, Rússar og Úkraínumenn voru miklu sterkari en Skotar nú.

Auðvitað er nóg eftir af keppninni nú og góður möguleiki fyrir Íslendinga að rétta hlut sinn. En ef metnaðurinn er á því stigi, að landsliðsþjálfarinn líkir sigri á Skotum við það að fagna heimsmeistaratitli, þá er ekki von á góðu. Í alvöru talað…

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)