Minnkandi stuðningur við Samfylkinguna þarf ekki að koma á óvart, nú þegar almenningi hefur gefist kostur á að kynna sér fyrir hvað Samfylkingin stendur, hvað hún hefur fram að færa og hversu trúverðug hún er í raun og veru.
Undanfarnar vikur hefur forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar farið um landið ásamt öðrum forystumönnum flokksins og haldið opna fundi með fólkinu í landinu. Þessi fundaherferð hefur skilað sér í því, að fylgið hefur hrunið af flokknum.
Þetta verður að teljast töluverður „árangur“, því mörg þeirra svæði sem Samfylkingarforystan hefur komið á yfirreið sinni, hafa átt í erfiðleikum undanfarin ár. Einhvern veginn hefði manni fundist að þarna væru sóknarfæri fyrir stjórnarandstöðuflokk sem ætlaði sér stóra hluti.
En þessi niðurstaða þarf hins vegar ekki að koma á óvart. Það þýðir ekkert að bjóða upp á „umræðustjórnmál“ og „nútímalegt lýðræði“ þegar fólk vill fá svör um afkomu sína og lífsskilyrði. Þegar að þessum grundvallarhlutum kemur, þá hefur Samfylkingin engin svör.
Hin misheppnaða fundaherferð forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar um landið undirstrikar að sú stefna sem ímyndarsérfræðingar flokksins hafa tekið – að forðast málefnalega umræðu – er í öllum meginatriðum rétta meðalið fyrir Samfylkinguna.
Með klókri auglýsingamennsku má nefnilega draga upp þá ímynd af stjórnmálaflokki að hann sé líklegur til afreka, hann sé „nútímalegur“ og „frjálslyndur“ jafnaðarmannaflokkur, sem muni ekki klúðra neinu í efnahagsmálunum og hlúa frekar en gert hefur verið að velferðarmálum.
Þegar horft er yfir framboðslista Samfylkingarinnar og þá væntanlegt þinglið flokksins og ráðherraefni, verður manni þó ljóst að þar er gamalt vín á nýjum belgjum. Engin – alls engin – endurnýjun átti sér stað í prófkjörum flokksins sl. haust. Þeir sem halda því fram að Samfylkingin nú standi fyrir frjálslynd og nútímaleg viðhorf eru því að láta blekkjast af ímyndarbrellum og útsmoginni auglýsingamennsku.
„Árangurinn“ af fundaherferð Samfylkingarforystunnar sýnir svo ekki verður um villst, að kjósendur hafa ekki nokkra trú á lausnum vinstri manna – þegar ímyndarhulunni hefur verið svipt af þeim. Það er nefnilega alveg sama hversu hin frjálslynda og nútímalega ímynd er blásin upp, fyrr en síðar kemur að því að opna verður pakkann og skoða innihaldið. Sá tími er einfaldlega runninn upp – og fylgið hrynur.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021