Í gamla daga fór ég oft á bryggjurúnt með föður mínum, þá var ferðinni oft heitið á gömlu höfnina eða farið til Hafnfjarðar. Þar hitti pabbi kunningja sína sem stunduðu sjóinn líkt og hann hafði gert áður.
Nú þegar ég kem á höfnina blasir við mér allt önnur sýn. Flestar fiskvinnslur sem þarna voru áður eru annað hvort farnar eða á leiðinni í burtu. Faxamjöl rekur ennþá sína verksmiðju á svæðinu en býr við mjög ströng starfsskilyrði. Óljóst er því hversu lengi þeir muni staldra við en starfsleyfi verksmiðjunnar dugar til 2005. Sú lykt sem áður var kölluð peningalykt, heitir í dag bara fýla sem fólk vill burt úr miðbænum. Það iðandi mannlíf sem áður var í kringum gömlu höfnina er komið annað.
Mikið af því húsnæði sem áður var notað undir fiskvinnslu hefur nú verið breytt í skrifstofuhúsnæði. Hafa fyrirtæki ótengd hafnrekstri aukið hlutdeild sína á höfninni, þótt strangt tiltekið sé það ekki heimilt, samkvæmt lóðasamningi. Breytingarnar hafa stuðlað að því að það rusl og sá skítur sem var á svæðinu fer minnkandi og umhverfið mun fallegra en það var.
Fyrir utan þær breytingar sem hafa átt sér stað á atvinnulífi svæðisins, stefnir í að íbúðarbyggð komi inn á svæðið. Breyta á gamla hraðfrystihúsinu við Mýraragötu í vinnustofuíbúðir fyrir listamenn. Einnig er rætt um að svæðið sem slippurinn var á verði breytt í íbúðarbyggð, ekki ólíkt þeirri byggð sem er kölluð bryggjuhverfið við Grafarvoginn.
Stærstu breytingarnar verða við tilkomu Tónlistarhússins. Tónlistarhúsið á að koma þar sem Faxaskáli er núna og þar með hverfur sú löndunaraðstaða sem þar er. Líklega hverfur seinasti togarinn úr höfninni við þetta.
Þótt ég sé í hópi þeirra sem sakna ekki peningalyktarinnar í miðbænum, finnst mér mikil eftirsjá að því ef öll hafntengd starfsemi flyst burt úr miðborginni. Í mörgum þeirra borga sem ég hef ferðast til þar sem er hafntengdur rekstur, hefur verið líf í kringum höfnina og það hefur verið gaman að fara niður á höfn og kaupa ferskan fisk, jafnvel kaupa einhvern skyndirétt og fylgjast með sjómönnunum koma að landi og landa aflanum sínum.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020