Nei, sigur MR í Gettu betur kemur ekki mikið á óvart. Þessi sigur er víst sá tólfti í röð og er því ekki langt í að MR nái því þeim merka áfánga að geta sett lið sitt saman einungis af mönnum sem fæddir voru eftir að sigurgangan hófst.
Að sama skapi og maður gleðst með sigri síns gamla skóla og óskar hinum hárprúðu ungu möngum góðrar, heilbrigðrarskemmtunar í heitu sumarlandi kemst maður ekki hjá því að taka svolítið undir með hinum almenna áhorfanda. Þessi langa sigurganga hefur komið niður á skemmtanagildi keppninnar.
Einhver staðar heyrði ég að teigurinn í NBA deildinni hafi verið stækkaður á sínum tíma til að minnka yfirburði Jabbars. Á sama hátt hafa komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig minnka mætti sigurlíkur MR og auka skemmtanagildi keppninnar. Einhvern tímann voru spurningarnar gerðar einfaldari í von um að hin liðin yrðu stundum fyrir tilviljun fljótari en MR til að hringja bjöllunni og ef það gerist oft í einni keppni getur jafnvel farið svo að MR verði undir. Síðan hafa stundum komið fram hugmyndir um að skeyta saman Gettu betur og Morfís en MR hefur ekki unnið seinni keppnina í mörg ár. Einhvern tímann voru hraðaspurningarnar færðar aftur fyrir til að MR mundi ekki gera út um keppnina á fyrsta korterinu og að lokum má ekki gleyma þeirri skondnu hugmynd sem fram kom á FF þingi í fyrra um að banna þeim skóla sem vinna þrjú ár í röð að taka þátt á komandi ári.
Öllum sem sáu úrslitin var ljóst að yfirburðir MR voru miklir. En að baki þeim yfirburðum liggur gríðarmikil vinna. Tveir í MR-liðinu höfðu verið í þjálfun í 2 ár áður en þátttaka þeirra í keppninni hófst. Það má því fullyrða að keppnin verður ekki spennandi fyrr en hinir skólarnir taka sér tak og fara skipuleggja sína þátttöku betur að keppnin geti orðið spennandi á ný.
MR-hefur að undanförnu komið sér upp öflugu kerfi við val og þjálfun keppenda. Í upphafi árs er haldin skrifleg undankeppni sem gamlir keppendur skipuleggja. Þeim fyrsta árs nemum sem lenda ofarlega er boðið að gerast liðstjórar. Þeir sjá þá um að semja spurningar fyrir aðaliðið í eitt eða tvö ár og afla sér þannig gríðarlegrar þekkingar áður en þeir taka sjálfir sæti. Reynt er að koma því þannig fyrir að liðsmenn komi ekki úr sama árgangi til að alltaf séu einhverjir með reynslu innan liðsins. Einn gamall keppandi tekur að sér að þjálfa liðið.
Að auki sér liðið um spurningakeppni bekkjardeilda innan skólans þar sem þeir notast væntanlega að einhverju leiti við spurningar úr þjálfuninni. Þessi litla spurningakeppni er með mjög svipuðu sniði og Gettu betur. Hugmyndin með henni er að gefa bekkjum færi á að meta visku sína og að halda uppi almennum áhuga á stóru keppninni.
Af og til koma upp lið úr öðrum skólum sem geta skákað MR, t.d. Borgarholtsskóli fyrir 2 árum og MH fyrir nokkrum árum áður. Þeim skólum hefur ekki tekist að fylgja eftir þeim árangri enda oft um að ræða fólk af sama árgangi sem hættir allt á einu bretti og nær ekki að skapa hefð. Það er því mín tillaga um að aðrir skólar komi sér upp þjálfara- og inntökukerfi að fordæmi MR. Aðeins þannig verður MR-veldinu ógnað.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021