Í yfirvofandi kreppuástandi horfa margir til stóriðjuframkvæmda sem lausn á vanda íslensku krónunnar. Íslensku efnahagslífi veitir svo sem ekki af þeirri gjaldeyrisinnspýtingu sem útflutningur á áli hefði í för með sér og vissulega eigum við ódýra, vistvæna og ónýtta orku – auðlind sem ber að nýta. En þrátt fyrir kosti þess að reisa hér álver verður því ekki neitað að lausnin er langt frá því að vera frumleg og ekki líkleg til að viðhalda hér hagvexti til framtíðar. Svo virðist sem Íslendingar séu enn að horfa til einhvers konar iðnbyltingar svipaðri þeirri sem aðrar vestrænar þjóðir gengu í gegnum á þarsíðustu öld.
Álframleiðsla er hráefnisframleiðsla líkt og fiskveiðar og hefur þ.a.l. frekar takmarkaða vaxtarmöguleika. Ál og fiskur, okkar helstu útflutningsvörur, eru einsleitar og á hráefnismarkaði er aðallega keppst um að geta boðið lægsta verðið en ekki bestu gæðin. Verðmætin verða til við úrvinnslu á hráefninu en þar sem Íslendingar flytja sínar vörur að mestu óunnar á erlenda markaði látum við öðrum eftir verðmætasköpunina. Að vísu höfum við náð ákveðnum framförum í vinnslu á fiski á síðustu árum en eigum þó langt í land.
Það sem þjóðina, krónuna og íslenska framtíð vantar er ekki meira súrál heldur tækifæri til að vinna úr því hráefni sem við framleiðum í dag.
Og hvað getum við svo gert við það hráefni sem við framleiðum og þá vistvænu orku sem landið býr yfir?
Það er augljóst að við þurfum að fullvinna fisk og önnur auðævi sjávar fyrir neytendamarkað. Ástæðan fyrir því að okkur hefur ekki gengið betur í markaðssetningu á fullunnum sjávarafurðum er augljós: Við borðum ekki fisk! Íslendingar kunna bara að veiða fisk en hvorki að matreiða hann né borða
Álið sem við framleiðum með okkar vistvænu orku fer að mestu óunnið úr landi og er sennilega notað til þess að framleiða bíla, flugvélar, tæki og tól einhvers staðar annars staðar í hinum vestræna heimi. Það er hugsanlega of seint í rassinn gripið að stefna að bíla- eða flugvélaframleiðslu hér á landi en t.d. út frá nýsköpun við Verkfræðideild H.Í. varð til fyrirtækið Marel sem notar íslenskt ál og íslenskt hugvit til þess að skapa þjóðinni gjaldeyristekjur. Álframleiðsla er heldur ekki eini orkufreki iðnaðurinn sem völ er á. Við gætum hugsanlega horft til margra annarra iðngreina eins og framleiðslu demanta. Með nógu miklum hita og þrýstingi, þ.e.a.s. nógu mikilli orku, er hægt að breyta kolefni í demanta. Demantana er svo hægt að nota fyrir komandi tölvukynslóðir (sjá nánar grein á Deiglunni um demantaframleiðslu).
Höfundur þessarar greinar er ekki á móti stóriðju á Íslandi en áður en við þurfum á þarnæsta álveri að halda (eftir u.þ.b.10-20 ár) skulum við vera búin að vinna úr því hráefni sem við framleiðum. Á meðan við erum í aftasta sæti á meðal OECD þjóða yfir útskrifaða verk- og tæknifræðinga per þúsund íbúa er ólíklegt að hér byggist upp samkeppnishæft atvinnulíf. Því legg ég til að Verkfræðideild Háskóla Íslands verði gefið „frelsi” frá Háskólanum, hún sameinuð Tækniskólanum og henni veitt fjárhagslegt svigrúm til þess að stuðla að verðmætasköpun á Íslandi.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009