Nú stendur yfir landsfundur Sjálfstæðisflokksins með miklum myndarbrag í Laugardagshöll. Sjálfstæðismenn halda vígreifir út í kosningabaráttuna og formaður flokksins hefur gefiið út að á næsta kjörtímabili verði haldið áfram að lækka skatta. Forsætisráðherra, ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það og sannað að þeim er treystandi til þess að framfylgja Sjálfstæðisstefnunni með frelsi einstaklingsins að leiðarljósi. Við getum því óhikað gengið til kosninga á grundvelli áframhaldandi stöðugleika, festu og hagsældar.
Samfylkingin mælist nú sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum. Er það vel. Það er Sjálfstæðisflokknum ekkert nema hollt að fá aðhald frá vinstri og einhvers konar keppinaut að eiga við. Á heilbrigðri samkeppni byggist sjálfstæðisstefnan og hentistefna Samfylkingarinnar hvetur okkar þingmenn til þess að leggja harðar að sér í varðveislu þeirra gilda sem sameinar okkur Sjálfstæðismenn.
Við megum ekki glepjast af hentistefnu Samfylkingarinnar og halda að flokknum sé hollt að fá frí frá ríkisstjórnarstörfum. Sé slík hugsun hugsuð til enda er niðurstaðan ekki bætt sjálfstæðisstefna heldur minni hagvöxtur. Það er hræðsluáróður að segja að hér fari allt til fjandans komist vinstri menn til valda. En það er ekki hræðsluáróður heldur staðreynd að vinstri flokkarnir hafa hvorki sýnt festu né hæfni til þess að ráða í hagspilin. Hví ættu hluthafar fyrirtækis að segja upp árangursríkri framkvæmdastjórn til þess eins að veita meðalgóðum starfsmönnum stöðuhækkun?
Pistlahöfundur heyrir annað kastið að einstaka sjálfstæðismaður sé óánægður með hitt og þetta í stefnu flokksins og framkvæmd. Pistlahöfundur er á stundum einn þeirra en það er þó langt í frá ástæða til þess að skipta um stjórn í landinu. Það er “ekkert í lagi“ að kjósa Samfylkinguna yfir sig. Það er bág sambúð ef ætíð skal rjúka til og skipta um maka komi upp ágreiningur. Landsfundur er tækifæri okkar Sjálfstæðismanna til að koma á framfæri hugsunum okkar og viðhorfum til framtíðar inn í stefnu flokksins. Áfram Ísland.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009