Þú vaknar með dúndrandi höfuðverk, flökurleika og augu og munnur eru eins og sandpappír. Þú skrölltir á lappir og staulast í átt að eldhúsinu til að ná þér í ískalt kók, en snögglega breytist stefnan inn á klósett þar sem þú kemst að því að það sem þú borðaðir og drakkst kvöldið áður er ekki eins kræsilegt lengur. Í ofanálag ferðu að finna til tómleika og vanlíðan. Þetta eru ein af fjölmörgum einkennum þynnku
Eða þú ert kannski meðal 25 prósenta fólks sem aldrei verður þunnt? Hin fjölbreytilegu einkenni þynnkunnar eftir einstaklingum og eins eftir því hvað maður drekkur hefur gert rannsakendum erfiðara fyrir að skýra hana að fullu. Það er til dæmis áhugavert að þynnkan getur verið til staðar löngu eftir að alkóhólið er horfið úr blóðinu. Af því sprettur sú kenning að orsök þynnkunnar megi rekja til asetaldehýðs sem verður til þegar alkóhól brotnar niður. Önnur kenning einblínir á efnin sem verða til þegar aukaefnin í áfengum drykkjum brotna niður. Dökkir drykkir svo sem koníak, rauðvín og viskí hafa fleiri aukaefni og valda meiri þynnku en ljósir drykkir eins og gin og vodki.
Þorstann er kannski ekki svo erfitt að skilja. Alkóhól dregur nefnilega úr virkni hormóns sem sér til þess að við pissum ekki of mikið. Útkoman verður því, eins og við þekkjum, að við pissum eins og við eigum lífið að leysa þegar við erum drukkin og erum svo uppþornuð næsta morgun. Hið yfirgengilega þvaglát hefur jafnvel í för með sér lækkandi blóðmagn í líkamanum. Af þessum sökum pissum við nánast ekkert daginn eftir því líkaminn er að vinna upp vökvatapið.
Og kenningin um að þynnkan versni með aldrinum virðist eiga við rök að styðjast. Það voru nefnilega snillingar sem tóku þrjá rottuhópa, hvern með mismunandi aldurssamsetningu, og fyllti allar rotturnar. Viti menn, þrátt fyrir að framan af hafi yngsti hópurinn mælst með hæsta alkóhólhlutfallið í blóðinu, þá sýndu elstu rotturnar greinilegri einkenni þynnku…….
- Elsku vinir, koma svo - 31. maí 2021
- Yndisleg borg í blíðviðri - 24. júlí 2006
- Mikilvæg málefni - 13. maí 2006