Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram nú um helgina og hefst hann seinnipartinn í dag með setningarræðu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Mikilvæg vinna liggur fyrir landsfundinum sem haldinn er í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor og mun fundurinn leggja grunninn að stefnuskrá flokksins í komandi kosningum.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins, sem eru að jafnaði haldnir annað hvert ár, hafa löngum verið með stærstu stjórnmálasamkomum hér á landi og engin breyting á því nú. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins og hátt í 1200 fulltrúar alls staðar af að landinu munu um helgina vinna að mótun heildarstefnu flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í maí, og þeirri stefnu sem flokkurinn mun vinna að í ríkisstjórn fái hann umboð frá kjósendum til þess.
Stjórnmálastarfið innan Sjálfstæðisflokksins er mjög öflugt og hefur undirbúningur landsfundar staðið yfir í allan vetur. Alls hafa 25 málefnanefndir starfað með flokksmönnum vítt og breytt um landið og fyrir fundinum liggja drög að ályktunum nefndanna í öllum mikilvægustu málaflokkum.
Sjálfstæðismenn eru vel stemmdir fyrir þennan landsfund enda styttist óðum í kosningar. Andrúmsloftið á vígvelli stjórnmálanna hefur verið nokkuð rafmagnað að undanförnu og hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að fá misjafna útkomu í skoðanakönnunum undanfarið. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa verið afar farsælar og staðið fyrir miklum og jákvæðum breytingum á íslensku samfélagi.
Gríðarlega breið samstaða er meðal sjálfstæðismanna og mikill hugur er í fólki að tryggja flokknum stuðning til áframhaldandi veru í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu 12 árum margsannað að honum er treystandi til að hrinda góðum málum í framkvæmd. Drög að ályktunum landsfundar sýna að flokkurinn vill halda áfram og gera betur. Lækkun skatta og afnám erfða- og eignaskatts eru á meðal þeirra stefnumála sem skapa hér aðstæður svo hægt verði að stuðla að áframhaldandi framförum á öllum sviðum samfélagins. Það er tími til að halda áfram að vinna vel fyrir Ísland. Það getur Sjálfstæðisflokkurinn. Áfram Ísland.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020