Víða um heim er fólksfjölgun verulegt vandamál og á það einkum við hin fátækari svæði heims. Það er gjarnan haft til marks um hversu langt þjóðir eru komnar á þróunarbrautinni ef vel gengur að halda fæðingartíðni niðri. En þessi velgengni getur þó snúist upp í andhverfu sína og sú virðist vera raunin hér á landi.
Samkvæmt nýjustu tölum um fæðingartíðni hér á landi er tíðnin nú svo lág, að ekki er hægt að tala um þjóðin viðhaldi sér, hvað þá að henni fjölgi að ráði. Það þykir orðið sérstaklega tilkomumikið hjá fólki að eignast sitt fyrsta barn fyrir þrítugt og sumir súpa hveljur þegar þeir heyra um fimm manna fjölskyldur þar sem foreldrarnir eru hálfþrítugir.
Sem betur fer er mannskepnan þannig af skaparanum gerð að hún þarf ekki mikið hafa fyrir því að fjölga sér. Þó er það auðvitað svo að ófrjósemi og önnur sambærileg ógæfa getur orðið til þess að hamla barneignum í einstaka tilvikum. En almennt er það á færi flestra að búa til börn og er í raun hægur vandi.
Vandinn meiri er hins vegar að eiga börn, ala fyrir þeim önn og bera ábyrgð á hinni miklu skuldbindingu sem því fylgir. Því miður virðast æ færri hafa vilja til þess að takast á hendur slíkar skuldbindingar. Erfitt er að dæma um hvað veldur en líklega er það svo, að fólk telur börnin byrði í kapphlaupinu til frekari lífsgæða.
En þetta fráleita viðhorf mun koma okkur í koll. Innan fárra ára munu gríðarlega stórir árgangar fólks komast á eftirlaunaaldur á sama tíma og stöðugt fækkar í yngri árgöngunum. Það gefur auga leið að velferðarstigið hlýtur að lækka eftir því sem færri sjá um að halda því uppi og fleiri eru á hinum endanum.
Til allrar hamingju búum við að frábæru lífeyrissjóðskerfi, sem byggist á söfnunarsjóðum en ekki gegnumstreymissjóðum, þannig að ekki er eins svart framundan í þessum efnum og ella hefði verið. Hins vegar kemur fleira til en lífeyrir þegar umönnun eldri kynslóðanna er annars vegar, t.a.m. heilbrigðisþjónusta sem er langsamlega stærsti útgjaldaliður ríkisins á hverju ári.
Fyrir utan þessi rök, að gæta þurfi að kynslóðajafnvæginu, þannig að nægilega margir vinni fyrir þeim sem ekki eru færir um það, þá má halda því fram að brýnt sé að þjóðinni fjölgi til mikilla muna. Það kostar mikið að vera sjálfstæð þjóð í eigin landi og sérstaklega þegar þjóðin vill vera „þjóð meðal þjóða“, eiga sendiráð í hverju landi, reka allar stofnanir sem stórþjóðir gera, eiga fullkomið samgöngukerfi sem sums staðar þjónar örfáum hundruðum, heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða o.s.frv. Til lengri tíma litið erum við of fá til að standa undir þessum stærilátum.
Ég tel litlar líkur á því Íslendingar taki sig til og láti af öllum stærilátum og belgingi. Þess vegna er það bæði rökrétt og eðlilegt að við aukum okkar náttúrulegustu framleiðslu til að standa undir því sem viljum vera. Framleiðsluaukning á Íslendingum er aðkallandi – spurning hvort hér sé ekki á ferðinni bara besta og skemmtilegasta kosningamálið…?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021