Þessa dagana er lítið annað sem kemst að í fjölmiðlum en stríðið í Írak og skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokkana. Helsti vefmiðill landsins er uppfullur af stríðsfréttum og prýðir forsíðu hans núorðið sjaldan mynd af öðru en atburðunum við Persaflóa. Inn á milli birtir hann þó reglulega fréttir af ýmsum farfuglum sem sést hafa hvaðan æva um landið. Lóa – þó ekki Finnboga – sást víst í gær við Höfn og vepjur og sefhænur hafa komið til Vestfjarða nú í byrjun árs.
Þar að auki hafa kjarrbítur, svartsvanur, tjaldur, gráþröstur og skúfendur náð því að komast í fréttirnar síðustu vikur. Ekki fyrir aðrar sakir en þær að til þeirra sást. Alveg er það með ólíkindum fjöldi þessara fuglafrétta upp á síðkastið. Fæstir gera sér eflaust grein fyrir því að það sé verið að tala um fugla þegar þeir heyra orðin kjarrbítur og vepja. Það fyrsta sem mönnum dettur í hug er eflaust að kjarrbítur sé áburðartegund og að vepja sé einhvers konar suddi, vont veður eða slepjuleg kássa. Oft er talað um gúrkutíð þegar lítið er í fréttum. Fréttir af mismerkilegum atburðum eru þá kallaðar gúrkufréttir. Nærri lagi væri að kalla þetta fuglafréttir.
Það virðist vera sem mjög þröngur hópur fuglaáhugamanna hringi reglulega í fjölmiðlana og tilkynni hvaða fugla þeir hafi séð nýlega. Það er undarlegt að þessum mönnum skuli detta í hug að þorri landsmanna hafi áhuga á því að lesa um flökkulíferni þessara fiðruðu og fleygu dýra sem flestir vilja helst sjá á matseðlum veitingahúsanna. “Uuuu…góðan daginn, Haukur heiti ég og hringi frá Biskupstungunum. Ég vildi bara láta vita af því að ég sá vepjur tvær á vappi hérna í grenndinni. Finnst þér það ekki merkilegt, ertu til í að taka viðtal við mig?” . Merkilegt nokk en svo virðist vera sem fjölmiðlarnir taki þessum fregnum sigri hrósandi allavega miðað við fjölda þeirra undanfarið.
En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Um daginn birtist frétt á www.mbl.is þess efnis að fyrsti tjaldurinn hefði sést á Ísafirði og það fylgdi sögunni að elstu menn myndu vart hvenær tjaldur hefði sést svo snemma áður. Það bar svo til tíðinda seinna þennan sama dag að fréttin var borin til baka því að tjaldurinn er staðfugl á Ísafirði. Sá hinn sami og hringdi kampakátur í mbl og tilkynnti um komu tjaldsins til Ísafjarðar hylur væntanlega andlit sitt á samkundum fuglaáhugamanna næstu vikurnar. Hann hlýtur að hafa orðið sér til háborinnar skammar. Svei mér þá – tjaldur á Ísafirði í mars. Ekkert nýtt í því karlinn minn!
Með fullri virðingu fyrir fuglaáhugamönnum er gaman að velta því fyrir sér hvað kætir annað fólk. Eflaust eru áhugamál mannsins næstum jafnmörg og þeir eru margir. Það eru ekki allir sem hafa áhuga á því að lesa um vepjur og kjarrbíta eins og það eru margir sem kæra sig kollótta um fótbolta, hollywoodstjörnur og íslenska sundlandsliðið. En er þetta einmitt ekki ástæða þess hvað það getur verið gaman að spá í mannlegt eðli og kynnast nýju fólki? Já, eða vepjum, ef því er að skipta.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008