Allt frá því stríðið hófst í Írak höfum við fengið stöðugar fréttir frá vígstöðunum og aðgerðum bandamanna. Fjölmiðlafólk ferðast með hersveitum og tekur viðtöl í beinni við hermenn milli þess sem árásir eru gerðar.
Glæsilegir fréttamannafundir þar sem hershöfðingjar sýna myndir teknar úr flugvélum þegar sprengjur falla á skotmörk og farið er yfir stöðu mála á risa plasmaskjám. Yfirlýsingar fljúga um hversu vel gengur og bandamenn séu á undan áætlun, allt gangi upp eins og lagt var upp með og sigur sé jafnvel í augsýn. Síðar koma myndir af yfirheyrslum stríðsfanga og látnum hermönnum. Fréttir beint frá vígstöðunum þar sem mótspyrnunni er lýst og fremsta víglínan segir frá því að mótspyrnan sé meiri en við var búist. Hver er heildarmyndin, eru bandamenn með undirtökin eða eru Írakar erfiðari en við var búist?
Í fréttunum hljómar að Írakar „segjast hafa“ skotið niður Apache þyrlu og síðan eru sýndar myndir af þyrlunni á miðjum akri umkringda Írökum. Stoltur gamall Íraki gætir hennar með riffli, hann er reyndar einnig „sagður hafa“ skotið hana niður. Næsta frétt er síðan myndir af flugmönnum þyrlunnar í yfirheyrslu hjá Írökum og Pentagon staðfestir að þeir séu flugmenn hennar. Allt dregið í efa sem Írakar segja en ekkert sem kemur frá Washington eða London. Bandamenn mega sýna myndir af stríðföngum en sýni Írakar hermenn bandamanna eru um stríðsglæp að ræða.
Þessi stöðugi fréttaflaumur gerir okkur erfitt fyrir að meta hver staðan er í Írak, hafa bandamenn náð brúnum sem þarf til að komast til Bagdad, hafa þeir náð Umm Qasr og Basra – hvað þýðir „full control“ yfir borginni er það það sama og að ráða aðeins yfir útgönguleiðunum?
Gríðarlegt magn frétta þar sem úrvinnsla á fréttaefninu er oft lítil sem engin og fréttatilkynningar oftar en ekki lesnar beint upp án nokkurrar gagnrýni, umræðu eða staðfestinga, í mesta lagi í mýflugumynd því nýjar fréttamyndir berast stöðugt. Þrátt fyrir að horft sé á fréttastöðvarnar tímunum saman og fylgst með netinu er ekki einfalt að átta sig á stöðunni í stríðinu og draga ályktanir. Vandamálið vex síðan enn frekar þegar skipt er á milli fjölmiðla því fréttirnar og staðan er breytilegt milli fjölmiðla.
Við erum að horfa á stríð sem er háð í fjölmiðlum. Mikilvægt er því að hafa í huga að magn fréttanna kemur niður á gæðunum og við megum ekki vera of fljót að draga ályktanir út frá einni frétt.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005