Ekkert svið er jafnumsetið vafasömum, röngum og oft skaðlegum hugmyndum og heilbrigðismál. Mulið duft úr horni nashyrnings, steingerður saur villkatta frá Borneó og Egils orka eru meðal „þekktra“ meðala sem eiga að lækna hina ýmsu kvilla og leggur fólk oft mikið á sig til að komast yfir slík meðöl.
Það eru ekki aðeins þeir sem eru ómenntaðir eða miður gefnir sem falla fyrir þvílíkri firru. George Washington hélt að lækna mætti alla sjúkdóma með því að halda tveimur þríggja tommu málmbútum yfir sjúka líkamshlutanum. En hvað veldur? Hvers vegna hafa þvílíkar ranghugmyndir fengið að vaða uppi svo lengi? Hvers vegna heldur fólk áfram að trúa?
Líklegasta skýringin er að fólk leitar til óhefbundinna lækninga þegar hefðbundin læknisfræði er komin í þrot. Þá heyrir fólk sögur af ótrúlegum bata hjá fólki sem var svipað ástatt, finnur vonina aftur og fær tröllatrú á nýja lyfinu. Þetta eru kjöraðstæður fyrir „placebo“-áhrif, þ.e. sjúklingur trúir að eitthvað gefi honum bata og þá batnar honum. Einhver heyrir af þessum bata og heldur áfram að breiða út fagnaðarerindið.
Einnig er vert að athuga hvenær fólk leitar til óhefðbundinna lækninga. Rannsóknir sýna að óþægindi sem fylgja ólæknandi sjúkdómum, svo sem krabbamein og eyðni, koma í bylgjum. Þegar sjúklingi líður sem verst er hann tilbúinn til að reyna hvað sem er til að lina þjáningarnar og leitar þá á náðir skottulækna. Óþægindin geta hjaðnað við það en líklegt er að þau hefðu hjaðnað hvort eð er.
Líkaminn er sjálfur mikið lækningatæki og u.þ.b. helmingur allra veikinda sem fólk leitar sér lækningar við myndi læknast af sjálfu sér. Gefum honum tækifæri á að sýna mátt sinn og megin.
- Maísól hins hjólandi manns - 11. október 2005
- Ha, flugvöllur? - 7. október 2005
- Bjórvömb? - 30. október 2004