Í októberblaði VR blaðsins, sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur gefur út, er fjallað um helstu skýringar á launamuni kynjanna. Anna Guðný Júlíusdóttir lögfræðingur segir skoðun sína á þessum málum en hún skrifaði kandídatsritgerð frá Lagadeild Háskóla Íslands um þetta efni.
Í greininni byrjar Anna á því að segja að mikilvægt sé að gera greinamun á eðlilegum launamuni kynjanna og á launamismunun. Eðlilegur launamunur er til kominn vegna mismuni á vinnutíma, menntun, yfirvinnu o.fl. á meðan launamismunun er þegar tveir einstaklingar með sömu menntun, sama vinnutíma og starf fá ekki sömu laun.
Anna segir að launamismunun sé útbreidd á markaðinum og að það hafi komið sér á óvart hversu fáar konur hafa leitað réttar síns fyrir dómsstólum vegna launamismununar. Frá árinu 1976 hafa eingöngu mál 7 einstaklinga farið fyrir hæstarétt. Helstu ástæðuna segir Anna vera að það sé mjög erfitt að reka slíkt mál sérstaklega í ljósi þess að það getur haft áhrif á starfsframa viðkomandi einstaklings innan fyrirtækisins.
Ég verð að viðurkenna að ég á sjálf alltaf dálítið erfitt með að trúa því að launamismunun sé stórt vandamál hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að það hefur lengi tíðkast að menn semja ekki um laun sín sjálfir heldur er það í höndum verkalýðsfélaga sem launþegar eru skyldaðir til aðildar að. Þó hafa ánægjulegar breytingar verið að eiga sér stað í þá átt að upp verði tekið s.k. markaðslaunakerfi sem er mun persónubundnara launakerfi þar sem markaðsvirði hvers starfsmanns er útgangspunkurinn þegar samið er um laun og starfskjör.
Í greininni í VR blaðinu segir Anna að margir hagfræðingar telji að launamismunun hverfi með tímanunum þegar fullkomin samkeppni er komin á en að aðrir hafi sínar efasemdir um það. Kennig hagfræðingsins Åsa Rosen um mismunun kynjanna „felur í sér að karlar séu líklegri til að fá tilboð um vinnu með hærri launum en konur og þeir þurfi því ekki að sætta sig við laun undir ákveðnu marki. Konur fái hins vegar færri vinnutilboð og þau launatilboð sem þær fái séu almennt lægri en karla. Því muni konur halda áfram að þiggja störf þar sem lægri laun eru í boði því þær vita að þær eigi litla eða enga von á að fá betra tilboð. Vinnuveitendur fari ekki að bjóða konum hærri laun en þær séu tilbúnar til að sætta sig við miðað við þeirra markaðsstöðu.“ Anna segir að það sé mikið til í kenningu Rosen og vegna þess sé nauðsynlegt fyrir ríkið að grípa inn í t.d. með því að skylda vinnuveitendur til að ráða starfsmann af því kyni sem er í minnihluta ef að umsækjendur eru a.m.k. jafnhæfir.
Þessu er ég gjörsamlega ósammála. Það síðasta sem við þrufum er einmitt að ríkið fari að skylda fyrirtæki til að gera eitt eða annað. Væri ekki nær að konur færu einfaldlega fram á þau laun sem þeim finnst hæfa starfinu og þær eru sáttar við. Vinnuveitendur verða að hafa fullt frelsi ráða til sín starfsmenn án afskipta ríkisins. Velgengi fyrirtækja ganga út á fleira en að hafa best menntuðu starfsmennina, svona margar konur og svona marga karla í vinnu hjá fyrirtækinu. Oft er það starfsandinn fremur en launin sem ráða því hvort einstaklingar eru ánægðir á sínum vinnustað. Hvað segja kannanir þegar konur eru spurðar hvort þær eru sáttar við launin sín eða ekki? Ég hefði haldið að það skipti mestu máli.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020