Árið 1993 kom út í München bók eftir þýska rithöfundinn Axel Hacke. Bókin ber nafnið „Der kleine König Dezember“ og segir, eins og titillinn bendir til, frá litlum kóngi að nafni Desember. Hún hefur ekki enn verið þýdd yfir á íslensku en efni hennar er prýðis veganesti inn í helgina og verður því gerð nokkur skil hérna.
Litli kóngurinn hann Desember er á stærð vísifingur þegar sögumaðurinn finnur hann fyrst. Desember býr þá í sprungu á bak við bókahillu á heimili sögumannsins og nærist á hlaupböngsum. Desember hefur aldrei verið barn. Kóngar eins og hann byrja lífið fullorðnir og í fullri stærð. Eftir því sem þeir eldast minnka þeir – þar til þeir einn daginn hverfa. Þegar líf þeirra byrjar fara þeir í vinnuna eins og allir aðrir. Þeir kunna þá að skrifa og reikna og forrita og fara-í-vinnuna og fara-í-mat og allt annað sem maður þarf að kunna. Svo eldast þeir og byrja að gleyma. Þegar þeir eru búnir að gleyma hvernig á að fara-í-mat þurfa þeir ekki að mæta í vinnuna lengur. Þá fá þeir að vera heima og gleyma meiru til þess að búa til pláss fyrir nýjar hugsanir og drauma. Hjá þeim er „æskan“ í lok ævinnar og Desember segir að þar með hafi þeir alltaf eitthvað til að hlakka til.
Desember vill reyndar meina að það sé alls ekki rétt að þessu sé öfugt farið hjá okkur mannfólkinu, þ.e. að við séum lítil í byrjun og stækkum svo eftir því sem á líður. Það lítur bara svoleiðis út. Í byrjun erum við stór því okkur standa allir möguleikar opnir. Við erum með frjótt ímyndunarafl sem börn en vitum lítið. Af þessum sökum verðum við að ímynda okkur allt. Við ímyndum okkur hvernig ljósið kemur í lampann og myndin í sjónvarpið og jafnvel dvergana sem búa undir trjárótunum. Smám saman verður hið ímyndaða minna og minna og raunveruleikinn stærri og stærri. Í byrjun ætlum við að verða slökkviliðsmenn eða bara eitthvað allt annað. Eða við ætlum að verða hjúkrunarkonur eða bara eitthvað allt annað. Dag einn erum við orðin slökkviliðsmenn eða hjúkrunarkonur og „eitthvað allt annað“ er ekki lengur hægt. Desember segir að þetta sé líka að verða lítill með aldrinum.
Desember geymir draumana sína alla í öskjum og opnar eina á hverju kvöldi fyrir svefninn. Desember getur líka kynnt mann fyrir eldspúandi drekum sem fjötra mann á leiðinni í vinnuna og hann kann skemmtilegar sögur af fólkinu sem verður á vegi okkar daglega en við höfum aldrei heilsað. Með Desember getur maður setið á svölunum og horft á stjörnurnar og um leið kennir hann manni að þegar maður horfir upp í himingeiminn er maður ekki lítill heldur hluti af einhverju stóru.
Það er líklegast best að hver fyrir sig geri það upp við sig hvað hægt er að læra af honum Desember. Uppátæki hans og ævintýri eru reyndar fleiri en hægt er að gera grein fyrir hérna en þó ættu lesendur að hafa fengið nokkuð skýra mynd af því hvernig kóngar á við Desember gamla lifa lífi sínu. Það getur líklegast enginn svarað því nema Desember sjálfur hvort það sé ákjósanlegt að geyma barnæskuna fram að síðari hluta ævinnar en hitt veit ég að það hefðu margir gott af því að hafa einn lítinn Desember í bókahillunum hjá sér. Einhvern sem setur aðeins of marga sykurmola ofan í kaffibollann hjá manni og minnir okkur á hvað það er sem gerir lífið þess virði að lifa því.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008