Þróunarmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, Clare Short, er nú stödd í New Yorks til að ræða við Kofi Annan, framkvæmdastjóra SÞ, um eina af tveimur ályktununum sem breska ríkisstjórnin vill leggja fyrir SÞ um uppbyggingar- og mannúðarstarf í Írak að loknu stríðinu í Írak. Mikið mun mæða á Clare Short og bresku ríkisstjórninni við stefnumótun uppbyggingarstarfsins en margir efast um að Short sé hæf til starfsins eftir að hafa bakkað með hótun sína um að segja af sér embætti sem þróunarmálaráðherra en hún hafði hótað að hætta til að undirstrika andstöðu sína við innrás í Írak án umboðs frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Eitthvað var það sem sannfærði Short um að sitja áfram í ríkisstjórninni en sjálf sagði hún ástæðuna vera þá að hana langar til að taka þátt í endurreisn Íraks að stríðinu loknu og hún telur að kraftar sínir verði betur nýttir í stjórn en utan stjórnar. Short hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bakka með ákvörðun sína að segja af sér og hún hefur heldur betur fallið í áliti hjá flokksystkinum sínum og almenningi fyrir að taka svo harkalega U-beygju.
Það er hverjum manni ljóst að það var mjög heimskulegt af henni að hóta afsögn opinberlega og mjög heimskulegt af henni að bakka með allt saman. En þessi U-beygja kom sér þó fremur vel fyrir Tony Blair sem hefur líklega þurft að glíma við meiri andstöðu frá eigin flokksmönnum en nokkur annar forrveri hans í starfi.
Sú staðreynd að Short ákvað að sitja áfram dró úr áhrifum uppsagna annarra embættismanna Verkamannaflokksins því Short hefur hingað til verið álitin meðal vinsælustu þingmanna flokksins. Blair fyrirgefur henni því kannski glannaskapinn í bili en það er ljóst að stjórmálaferill Clare Short er mjög svo undir hælnum á Blair. Það hentar Blair ágætlega að hafa hana í stjórninni á meðan stríðinu stendur en hvað gerist að því loknu er ómögulegt að segja. Það er því ekki víst að hún fái að sinna því starfi sem hún vill nú svo gjarnan halda í.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020