Um þriðjungur þjóðarinnar eru börn og unglingar og er talið að amk 10% þeirra þurfi á einhverskonar aðstoð að halda vegna geðrænna vandamála eða geðraskanna. Geðræn vandamál geta verið margvísleg en félagslegar aðstæður skipta einnig miklu máli. Þannig geta börn og unglingar glímt við ýmis vandamál sem ekki teljast geðsjúkdómar eða geðraskanir, en dæmi um slíkt eru hegðunarraskanir og námsörðugleikar.
Undanfarnar vikur hefur mikil umræða farið fram í fjölmiðlum um þann fjárhagsvanda sem Barna og unglingageðdeild Landsspítalans glímir við. Þar eru legupláss af skornum skammti og langir biðlistar. Það eru því fjölmörg börn og unglingar sem ekki fá viðeigandi aðstoð við sínum vandamálum. Þetta gerir það að verkum að fjölskyldurnar þurfa að reyna að aðstoða einstaklinginn heima við þar til hægt er að koma honum undir læknishendur. Barna og unglingageðdeild er þriðja stigs stofnun og er því yfirleitt búið að reyna öll önnur úrræði fyrir viðkomandi einstakling og því ljóst að löng bið getur aukið mikið á vanda hans. Mjög veik börn og unglingar þurfa oft að bíða of lengi eftir aðstoð, en þessir einstaklingar geta verið hættulegir bæði sjálfum sér og öðrum.
Börn og unglingar sem þjást af geðrænum vandamálum og geðröskunum geta þjáðst af þeim í langan tíma og jafnvel ævilangt. Þetta geta því verið langveikir einstaklingar sem þurfa á aðstoð og umönnun að halda í langan tíma. Börn sem þjást af slíkum langvinnum sjúkdómum eiga hins vegar ekki rétt á úrræðum eins og dvöl á hvíldarheimilum. Ef þessi börn væru greind með þroskahömlun ættu þau rétt á slíkri vistun. Hvíldarvistun hefur það hlutverk að létta undir með þeim fjölskyldum sem eru með börn sem glíma við langvinnar geðraskanir. Þessum hópi veikra barna þarf því augljóslega að huga betur að.
Í síðustu viku brást heilbrigðis og tryggingamálaráðherra við þeirri umræðu sem fram hefur komið undanfarnar vikur með því að kynna tillögur sem komnar eru frá forstjóra Landsspítalans. Þessar tillögur miða að því að auka þjónustu við þau börn og unglinga sem glíma við geðræn vandamál. Þannig á að stofna tímabundið teymi sem einbeitir sér að bráðatilvikum og því að vinna á bráðabiðlistum unglingageðdeildar. Einnig verður það tryggt að sú fyrirgreiðsla sem veitt var til barnageðlæknisþjónustu á árinu 2002 muni halda sér á þessu ári. Í framhaldi af þessu mun heilbrigðisráðherra svo hefja undirbúning að stækkun barna og unglingageðdeildar og flutningi göngudeildarinnar.
Þessar aðgerðir eru löngu tímabærar og því jákvætt að heilbrigðisráðherra geri sér loks grein fyrir því að breytinga er þörf. En þessar tillögur bera ákveðin keim af tímabundnum lausnum. Það þarf ekki einungis að setja af stað tímabundnar aðgerðir heldur þarf að leysa vandann til framtíðar. Sá vandi liggur í öllu kerfinu sem lýtur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Það er alveg ljóst að til að hægt verði að veita þeim börnum og unglingum, sem glíma við alvarleg geðræn vandamál, þá þjónustu sem þeim ber þarf að auka verulega fjárframlög til þessara málefna. Vandann þarf að leysa til framtíðar þar sem börn þessa lands eru framtíð þess.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006