Í gær kveikti Ingibjörg Sólrún á jólaljósunum í Reykjavík við hátíðlega athöfn. Veðrið var ekki upp á sitt besta en við Íslendingar látum ekki snjókomu og hvassviðri aftra okkur frá því að njóta jólanna um miðjan nóvember. Það var heldur ekki seinna vænna að kveikja á ljósunum því jólaauglýsingar hafa verið keyrðar í rúman mánuð, mörgum til mikillar hrellingar.
Það er í sjálfu sér augljóst hvers vegna kaupmenn vilja hefja jólin snemma. Viðskipti eru líklega aldrei meiri en einmitt í desember þegar Íslendingar reyna að vinna bug á skammdeginu og miðað við efnahagssamdrátt síðustu mánaða kvíða eflaust margir búðaeigendur því að jólavertíðin nái ekki að vinna upp tap ársins. Veitingahúsin eiga í svipuðum vanda enda standa þau hálftóm allt árið og má því búast við hrinu gjaldþrota á þeim vettvangi fljótlega eftir áramót. Í sjálfu sér er það ekki endilega vegna efnahagsástandsins heldur of mikils framboðs veitingastaða en það er sama vandamál og í verslunarrekstri.
Smáralindin hefur nú verið opin í rúman mánuð og þrátt fyrir að undirritaður hafi ekki gerst svo frægur að koma þangað virðast flestir aðrir hafa lagt lykkju a leið sína til að skoða stærstu búð á Íslandi. Þetta hefur margoft komið fram í viðtölum við forsvarsmenn Smáralindar og því mætti ætla að tilefni væri til bjartsýni. Staðreyndin er hins vegar sú að sala hefur verið frekar lítil og dæmi er um skóbúð sem seldi fyrsta parið á þriðja degi. Kaupmenn í Smáralindinni munu því leggja mikla áherslu á að draga fólk til sín í desember og væntanlega munu heilu flugvélarnar koma utan að landi með fólk til að sinna jólainnkaupunum.
Í sjálfu sér er engin ástæða til að vera svartsýnn á framtíð Smáralindar og annarra verslana á Íslandi. Kaupmenn ættu að sameinast í átaki erlendis, hugsanlega með Flugleiðum, þar sem þeir kynna íslenskt verslana- og veitingahúsaumhverfi en gengisþróun síðustu mánaða hefur gert Ísland að ódýrustu borg í Evrópu hvað varðar flest annað en matvæli. Merkjavörur og raftæki eru til að mynda mun ódýrari hér en annar staðar og því sennilegt að ein vél frá Ameríku myndi kaupa meira en heilt íslenskt sveitarfélag.
Ég hef ákveðna samúð með kaupmönnum þótt jólatíðin hefjist allt of snemma að mínu mati. Jólaljósin bæta þó upp svartasta skammdegið og þess vegna stóð ég í kulda og vosbúð og horfði á ljósin á Laugarveginum í gær. Það eru jú bara rúmlega fimm vikur til jóla.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005