Yfir 300 þúsund kjósendur voru á kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna á laugardaginn. Þar af kusu 91%. Af þeim sem afstöðu tóku voru 53,6% með aðild en 46,4% á móti.
Maltnesk stjórnmál undanfarin ár hafa að miklu leyti snúist um ESB-aðild. Tveir stórir flokkar eru á Möltu. Verkamannaflokkurinn hefur undanfarin ár barist gegn aðild en Þjóðernisflokkurinn verið fylgjandi. Þannig er töluvert langt síðan að landið sótti um inngöngu í ESB en hins vegar var aðildarumsóknin „fryst“ þann tíma sem Verkamannaflokkurinn var við völd. Það er því engin vafi á að úrslitin séu sigur fyrir Þjóðernisflokkinn og Eddie Fenech Adami forsætisráðherra þó að hinn eiginlegu úrslit ráðist í þingkosningum sem fara fram í næsta mánuði.
Verkamannaflokkurinn tók furðulega afstöðu til atkvæðagreiðslunnar. Um tíma stóð til að hvetja fólk til að ógilda seðilinn með því að rita á hann „Viva Malta“ en undir lokin hvatti flokkkurinn kjósendur sína til að gera eitt af þrennu: Að kjósa „nei“, ógilda atkvæði sitt, eða að sniðganga kosningarnar. Það var einmitt hið síðastnefnda sem formaður flokksins gerði en hann mætti þó á kjörstað til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram á sama tíma.
Þegar talið var upp úr kjörkössunum og ljóst var hvernig atkvæðin lágu lýsti Verkamannaflokkurinn yfir sigri enda var fjöldi þeirra sem “farið höfðu að þeirra ráðum” hærri um 7 þús. en fjöldi þeirra sem kosið höfðu „já“. Þ.e.a.s þeir sem kusu, „nei“, ógiltu atkvæðin eða kusu ekki voru sem sagt fleiri en þeir sem kusu „já“.
Í greininni „Að kjósa ekki“ sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru síðan var fjallað um þá algengu talnabrellu þeirra sem tapa í kosningum að túlka lága kosningaþátttöku sér í hag og er ofangreint tilfelli frá Möltu einmitt dæmi um slíkt.
Það er þó sem betur fer þannig ofangreindar ranghugmyndir maltneskrar stjórnarandstöðu geta ekki talist ógn við lýðræðið enda hafa þær engar afleiðingar í för með sér. Verra er þegar ákveðið er að láta kosningaþátttöku eða auð atkvæði hafa áhrif á úrslit kosninga, eins og til dæmis þegar 50% þátttöku er krafist. Það er grundvallaratriði að kosningar skulu leynilegar til þess að ekki sé hægt að kaupa atkvæði fólks. Þess vegna ógilda menn atkvæði sitt með því að krota kennitölu og bankareikning aftan á seðilinn. Um leið og ógild atkvæði fara að hafa áhrif á niðurstöðuna er komin hætta á að flokkar greiði mönnum fé fyrir að ógilda seðilinn eða einfaldlega að sitja heima.
Möltubúar ganga aftur að kjörborðinu eftir mánuð til að kjósa sér nýtt þing. Þær kosningar skipta öllu um það hvort landið gangi inn í ESB eða ekki. Það er því von að stjórnarandstaðan einbeiti sér að því að fá fólk á sitt band með hefðbundnum aðferðum í stað að þess reikna óákveðna kjósendur til liðs við sig með vafasömum talnabrellum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021