Leikstjórinn Stanley Kubrick hefði orðið 74 ára í dag, en hann lést fyrir þremur árum. Kubrick er tvímælalaust einn merkasti leikstjóri kvikmynda-
sögunnar, þótt menn greini á um hversu veglegan sess hann skuli skipa þar. Sjálfur sagði hann eitt sinn:
Spurningin er kannski sú, hvort Kubrick átti þarna við sjálfan sig eða aðra sem honum þótti lítið koma til? Kubrick var sannur listamaður og mikill hugsuður, eins og myndir hans bera með sér. Hann hafði sérstakan og óvæginn stíl og lagði mikið upp úr því að ná fram hughrifum með framsetningu sinni. Sannleikurinn lá að hans mati oftar en ekki í tilfinningunni fremur en í hugsuninni.
Af mörgum frægum myndum Kubricks er 2001: A Space Oddyssey hugsanlega sú frægasta, enda tímamótaverk í alla staði. Myndin kom út árið 1968 og hreppti Óskarsverðlaun fyrir tæknibrellur (Best visual effects), auk þess sem Kubrick var tilefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn. En fyrir utan frábæra tæknilega útfærslu lá mikil hugsun í verkinu sjálfu. Myndin kom út við upphaf geimaldar, aðeins einu ári áður en maðurinn steig fæti á tungið í fyrsta sinn, og verður að íhuga efni hennar í því ljósi. Margir töldu að Kubrick hefði tekist að endurskapa gömlu Hómerskvæðin um hetjuför Ódyseifs. Sjálfur skýrði Kubrick þema myndarinnar þannig:
Fyrsta mynd Kubricks, Day of the Fight, kom út árið 1950 þegar hann var 22 ára gamall, var 18 mínútna löng heimildarmynd sem hann gerði fyrir sparifé sitt. Áður en hann varð þrítugur hafði hann leikstýrt sjö kvikmyndum, og þar að auki skrifað handrit að þeim flestum. Árið 1960 leikstýrði hann stórvirkinu Spartacus og má segja að þar með hafi frægðarsól hans risið fyrir alvöru yfir kvikmyndaheiminum. En þetta var aðeins byrjunin.
Tveimur árum síðar leikstýrði hann myndinni Lolita og árið 1964 gerði hann hina frægu Dr. Strangelove, sem gagnrýnendur lofuðu í hvívetna. Fyrir þá mynd var hann kjörinn leikstjóri ársins af gagnrýnendum í New York og tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn. 2001: A Space Oddyssey kom síðan út 1968 og árið 1971 var röðin komin að A Clockwork Orange, sem sló rækilega í gegn hjá gagnrýnendum og hlaut Kubrick jafnframt Óskarstilnefningu sem besti leikstjórinn fyrir þá mynd. Barry Lyndon kom síðan út 1975 og hlaut hún jafnframt mikið lof og var margverðlaunuð.
Þrjár síðustu myndir Kubricks voru hver annarri snilldarlegri. The Shining kom út árið 1980 og þarf ekki að rifja hana upp fyrir þá sem séð hafa. Jack Nicholson fór á kostum í hlutverki geðklofa fjölskylduföðurins og margar senur myndarinnar eru ódauðlegar. Eftir The Shining tók Kubrick sér sjö ára hlé frá kvikmyndum en kom tvíefldur til baka með Full Metal Jacket sem er ein besta Víetnam-mynd sem gerð hefur verið. Myndin var nýlega sýnd í Ríkissjónarpinu og verður að segja að hún hefur elst fjári vel. Skömmu fyrir andlát sitt í 7. mars 1999, tókst Kubric að ljúka við klippingu á síðustu mynd sinni, Eyes Wide Shut með þeim Tom Cruise og Nichole Kidman í aðalhlutverki. Sú mynd er sjónrænt meistaraverk og þar blandar Kubrick snilldarlega aman mynd og hljóði til að ná fram þeim hughrifum sem hann vill vekja hjá áhorfandanum.
Eftir dauða Kubricks reyndi Steven Spielberg að máta skó meistarans með því að ljúka við myndina A.I., sem Kubrick hafði lagt drög að. Því er skemmst frá að segja að töfrana vantaði – það fer enginn í skóna hans Kubricks, ekki einu sinni Steven Spielberg.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021