Í Morgunblaðinu í gær birtist þessi mynd flennistór á forsíðunni. Myndin sýnir Talibana liggja í valnum eftir að herir Norðurbandalagsins hafa náð virki aftur á sitt vald skammt frá borginni Mazar-i-Sharif í Afganistan.
Í kvöldfréttum Stöðvar tvö í fyrrakvöld var sýnt afar ógeðfellt myndskeið frá sama stað er hermaður Norðurbandalagsins er fyrst skotinn í hausinn, hann rúllar svo niður háa brekku og er loks leiddur í burtu af félögum sínum á meðan það spýtist blóð úr auganu á honum.
Höfundur telur sig ekki vera í hópi veikhjartaðra manna en finnst þessi birtingargleði fjölmiðla varhugaverð. Morgunblaðið hefði komið viðhangandi frétt ágætlega til skila án þess að breiða myndina yfir forsíðuna. Börn lesa yfirleitt Morgunblaðið ekki til hlítar en mýmörg þeirra sjá forsíðuna á heimilum og í söluturnum. Að mati höfundar hefði myndin átt að birtast inni í blaðinu og hefði þá truflað fáa. Myndskeið Stöðvar tvö var heldur ekki til þess fallið að útskýra neitt frekar ástandið í virkinu eða stríðsátökin í Afganistan. Fréttamaður varaði reyndar við myndefninu en hversu margir foreldrar stukku þá til og gripu fyrir augun á börnum sínum?
En myndskeið Stöðvar tvö og forsíða Morgunblaðsins var heldur ekki til þess ætluð að miðla fréttum – heldur til að selja. Fjölmiðlarnir vilja að sjálfsögðu birta ögrandi fréttir til þess að auka samkeppnishæfni sína í fréttaflutningi. Það er e.t.v. góðra gjalda vert en hvar á að setja mörkin – eða á kannski ekki að setja nein mörk? Eigum við e.t.v. í framtíðinni eftir að sjá nauðgun í beinni útsendingu og barnaklám á forsíðum dagblaða?
En eru neytendur þá „fórnarlömb” fjölmiðla og óhefts fréttaflutnings þeirra? Nei, valdið hlýtur að liggja hjá neytandanum – okkur. Fjölmiðlar hafa birtingarvald yfir fréttaefni sínu en það eru neytendur sem skapa eftirspurnina. Ef þetta er það sem almenningur vill þá er þetta það sem almenningur fær. En aftur á móti ef okkur mislíkar eitthvað þá verðum við að láta í okkur heyra – og það er tilgangur þessarar greinar: SKAMM.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009