Síðastliðinn miðvikudag fjallaði pistlahöfundur um launakjör Sigurðar Einarssonar, forstjóra Kaupþings, sem höfðu verið mikið til umræðu dagana á undarn. Þar var bent á að ástæða þess að kaupauki hans var til umfjöllunar var meðal annars sú að skráning Kaupþings á markað í Svíþjóð knúði fyrirtækið til að veita mun ítarlegri upplýsingar um kjör hans en önnur íslensk fyrirtæki veita um kjör sinna forstjóra.
Sama dag tilkynnti Kauphöll Íslands breytingar á reglum sínum, sem fela í sér stóraukna upplýsingaskyldu um þau mál, og þegar þær reglur öðlast gildi, næsta sumar, verður upplýsingaskylda allra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands sambærileg við það sem Kaupþing býr við í Svíþjóð.
Þetta er eitt skrefið af mörgum sem tekin hafa verið til að auka eftirlitshlutverk Kauphallarinnar og auka gegnsæi hlutabréfamarkaðarins. Skemmst er að minnast þess þegar Kauphöllin beitti Búnaðarbankann og Plastprent févíti, annarsvegar fyrir brot á flöggunarreglum og hins vegar fyrir að leggja ekki fram skráningarlýsingu vegna hækkunar hlutafjár.
En betur má ef duga skal. Víðast hvar erlendis eru kröfur um gagnsæi og vernd smærri hluthafa enn talsvert ítarlegri en hérlendis. Hlutabréfamarkaður á Íslandi er ungur, reglurnar hafa verið í mótun og eru greinilega enn í endurskoðun.
Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um lækkun á þeim eignarhlut sem einstakur aðili má eignast í skráðu félagi, áður en skylda skapast fyrir hann til að bjóða í hlutabréf annarra aðila. Markmið þessara reglna er að koma í veg fyrir að smærri hluthafar læsist inni í fyrirtæki með algerlega áhrifalausan hlut í fyrirtæki sem stýrt er af einum aðila.
Kauphöllin hefur þegar fjallað um nauðsyn þess að lækka þessi mörk, en þau eru nú 50%. Í fyrirtæki í dreifðri eignaraðild getur þó hluthafi sem á minna en helming hlutafjár verið nánast einráður, og því hefur verið rætt um að miða við annaðhvort 40% eða 33% í staðinn. Að mati pistlahöfundar væri æskilegt að miða við þriðjung eignarhlutar en hugsanlega er eðlilegt að lækka mörkin í skrefum og fara þá fyrst í 40%, til að gefa markaðsaðilum tíma til að bregðast við.
Það væri ákjósanlegt ef tilkynnt yrði um breytingar á þessum reglum sem fyrst, en einn helsti annmarkin á undanförnum aðgerðum Kauphallarinnar er að þær hafa komið beint í kjölfar einstakra hitamála í þjóðfélaginu. Févíti Bankankans var tilkynnt skömmu eftir greinaflokk Morgunblaðsins um Íslandsbanka, sem olli miklu fjaðrafoki, og breytingarnar á upplýsingagjöf nú koma í sömu viku og launakjör forstjóra Kaupþings eru til umræðu í öllum fjölmiðlum.
Þótt nefnd um breytingar á upplýsingaskyldunni hafi raunar verið stofnuð í október síðastliðinn, og nýjar reglur séu því greinilega ekki bein afleiðing af fjölmiðlafári síðustu viku, opnar þetta möguleikann á gagnrýni. Þeim sem vildi líta á dökku hliðarnar gæti fundist að verið væri að byrgja brunna eftir að börnin eru dottin ofan í þá.
Það væri því mikið gleðiefni ef tilkynnt yrði um lækkun á viðmiðunarmörkum yfirtökuskyldu, áður en allt fer í háaloft út af einhverju máli því tengdu, frekar en eftirá.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020