Mér hefur alltaf þótt hálf einkennilegt að háskólanemar á Íslandi skuli ekki þurfa að taka þátt í því að greiða fyrir nám sitt. Háskólanám er einkar arðsöm fjárfesting. Og þar sem það eru fyrst og fremst nemendurnir sem njóta arðsins er eðlilegt að þeir greiði einhvern hluta af kostnaðinum sem náminu fylgir. Hlutverk ríkisins ætti að vera að sjá til þess að allir námsmenn, óháð fjárhag, geti fjármagnað nám sitt á sanngjörnum kjörum.
Í Ástralíu er málum einmitt þannig háttað. Í um 15 ár hefur þar í landi verið starfrækt kerfi sem heitir Higher Education Contribution Scheme (HECS). Samkvæmt þessu kerfi þurfa nemendur að greiða hluta af námskostnaði sínum. Lykilþáttur í kerfinu er hins vegar að nemendur geta frestað greiðslum þar til námi lýkur. Ef þeir kjósa að greiða strax hljóta þeir 25% afslátt. Annars greiða þeir HECS gjöldin eftir að námi lýkur með sköttunum sínum.
Upphæð HECS gjaldanna er mismunandi fyrir mismunandi nám. Nemendur í listanámi og húmanískum greinum greiða minnst en nemendur í lögfræði og læknisfræði greiða mest. Þannig miðast greiðslurnar að hluta við kostnaðinn sem náminu fylgir og að hluta við arðsemi námisins. HECS gjöldin nema í flestum tilfellum um þriðjungi þess kostnaðar sem náminu fylgir.
HECS kerfið hefur nú verið starfrækt í um 15 ár og virðist hafa reynst vel. Andstæðingar skólagjalda í háskólanám halda því oft á tíðum fram að slík gjöld muni fæla fólk frá námi. Í Ástralíu hefur ásókn í háskólanám aukist hröðum skrefum frá því HECS kerfið var tekið upp. Þetta virðist benda til þess að rétt útfærsla geti komið í veg fyrir að þátttaka nemenda í greiðslu kostnaðar af háskólanámi leiði til þess að nemendur veigri sér að fara í háskóla.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009