Í dag kynnti uppfinningamaðurinn Dean Kamen nýjustu uppfinningu sína í sjónvarpsþættinum Good Morning America á ABC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum. Í u.þ.b. ár hefur verið beðið eftir því að Kamen og fyrirtæki hans, Segway, kynntu nýja uppfinningu en miklar tröllasögur hafa spunnist í kringum þetta nýja tæki. Sögusagnir um að Kamen myndi kynna fljúgandi farartæki fyrir einstaklinga eða jafnvel einhvers konar sameindaflutningstæki (svona eins og í Star Trek) voru fjöllunum hærri. Leyndin yfir verkefninu var mikil og upplýsingar frá þeim, sem fengu tækifæri til að berja „Ginger“ augum, juku enn á dulúðina. Einhverjir létu hafa eftir sér að uppfinning Kamen yrði „mikilvægari en Internetið“.
Rétt fyrir kl. 14 að íslenskum tíma kynnti Kamen svo loks uppfinninguna fyrir sjónvarpsáhorfendum í Bandaríkjunum. Í ljós kom að um var að ræða eins konar rafhlöðuknúið vélhjól, eða vespu, að ræða. Vespan er rafknúin og er stýrt með ákaflega nákvæmum jafnvægisbúnaði sem er þess eðlis að stjórnandi ökutækisins veltir þunga sínum í takt við hvernig hann vill að farartækið hreyfist. Að sögn uppfinningamannsins er farartækinu ætlað að nýtast þeim sem þurfa oft að fara stuttar vegalengdir í stórborgum. Nú þegar hefur bandaríska póstþjónustan ákveðið að kaupa nokkur stykki til prufukeyrslu en búast má við að nokkur bið sé eftir að tækin komist í almenna dreifingu.
Ljóst er að þeir, sem hvað mestar áhyggjur hafa af mikilli notkun einkabíla, geta greint ákveðna vonarglætu í nýju uppfinningunni. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá er tekur farartækið einkanlega lítið pláss og þrátt fyrir að farartækið virðist óstöðugt þá segja kunnugir að það þurfi að leggja sig sérstaklega fram til þess að missa jafnvægið (þess má geta að farþeginn er enginn annar en uppfinningamaðurinn sjálfur – og er hann mjög uppfinningamannslegur að sjá). Hámarkshraði farartækisins er sagður vera í kringum 30 km á klukkustund og rafhlaðan endist ekki nema í u.þ.b. 30 km akstur. Þessir annmarkar verða væntanlega úr sögunni þegar frá líður en ólíklegt er að nægilega skjólgóð útgáfa fyrir íslenskar aðstæður sé á döfinni.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021