Með hverjum degi sem líður kemur betur í ljós hversu vandasamt það er að finna viðunandi friðsamlega lausn á þeim vandamálum sem menn standa frammi fyrir í tengslum við Írak.
Rót vandans er að Írak undir forystu Saddams Husseins er ekki treystandi. Vesturlönd hafa því ekki getað samið við hann hvorki um afvopnun, lýðræðislegar umbætur í landinu né heldur að stuðningi við hryðjuverkamenn verði hætt. Þetta eru atriði sem skipta vesturlönd miklu máli ekki síður en íbúa eða nágranna Íraks.
Eina markmið Saddams Husseins er að halda völdum sama hvað það kostar. Nær óhugsandi er að hann fari sjálfviljugur frá þrátt fyrir að áframhaldandi valdaseta hans sé dýrkeypt fyrir írösku þjóðina. Eins og menn vita þá hefur ástandið farið hratt versnandi síðustu ár fyrst og fremst vegna valdasetu hans en ekki viðskiptabanns sem er afleiðing hennar. Flest öllum er orðið það ljóst að hann á ekkert erindi sem leiðtogi þjóðar.
Nú er svo komið að vesturlönd geta ekki lengur setið aðgerðarlaus og horft upp á írösku þjóðina veslast upp. Tíminn til að grípa til aðgerða er að renna út. En hvað á til bragðs að taka?
Efnahagslegar þvinganir hafa ekki borið árangur og enginn árangur hefur náðst í samningaviðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annars staðar. Það er hins vegar ósennilegt að stríð skili betri árangri en þær leiðir sem reyndar hafa verið.
Stríð við Írak undir forystu Bandaríkjanna mun án nokkurs vafa ljúka með uppgjöf Íraka og falli Saddams. Það er þó langt í frá að markmiðum vesturlanda sé hægt að ná með stríði. Afskaplega ólíklegt er að hægt sé að knýja fram lýðræðislegar umbætur í kjölfar stríðsins. Fyrir því er engin hefð og slík tilraun er nánast dæmd fyrir fram til þess að mistakast. Í arabaríkjunum er engin hefð fyrir lýðræði og almenn fyrirlitning á flestu vestrænu þar á meðal lýðræði. Að knýja fram lýðræði með valdi er auk þess hálfgerð þversögn.
Erfitt er að ímynda sér að mál þróist í átt til lýðræðis eftir að hernámi lýkur. Í besta falli er hægt að tryggja þolanlega stjórn rétt á meðan á hernámi stendur. Það er varla ætlunin að hernámið standi um ókomna tíð.
Alda hryðjuverka mun dynja yfir vesturlönd í kjölfar stríðsins. Hatur í garð vesturlanda einkum Bandaríkjanna mun aukast bæði í Írak og öðrum arabalöndum. Hryðjuverk munu í framhaldi aukast bæði til langs og skamms tíma. Annað er óskhyggja. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir hryðjuverk með þessu stríði.
Og hvað varðar vopnin sem við höfum áhyggjur af að Saddam eigi, þeim verður beitt í stríðinu. Til lítils að afvopna Íraka eftir að öll efnavopn þeirra hafa verið notuð á Ísrael, Kúrdana og Kuwait.
Það er því fátt sem bendir til þess að stríð geti verið lausn á þeim vanda sem staðið er frammi fyrir. Eina raunhæfa lausnin er náttúrulega að Írakar sjálfir taki frumkvæðið og skipti Saddam út. Eina leiðin sem er fær er að breytingarnar séu sprottnar af vilja og frumkvæði írösku þjóðarinnar. Til þess þurfa Írakar okkar stuðning en ekki stríð.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004