Vel heppnuð afmælishátíð Deiglunnar

Í tilefni af 5 ára afmæli Deiglunnar þann 3. febrúar sl. var boðið til afmælishátiðar á Sal Menntaskólans í Reykjavík í gær, laugardaginn 15. febrúar. Hátiðin heppnaðist í alla stað vel, húsfyllir var og sannkölluð hátíðarstemmning ríkjandi.

Í tilefni af 5 ára afmæli Deiglunnar þann 3. febrúar sl. var boðið til afmælishátiðar á Sal Menntaskólans í Reykjavík í gær, laugardaginn 15. febrúar. Hátiðin heppnaðist í alla stað vel, húsfyllir var og sannkölluð hátíðarstemmning ríkjandi. Húsakynnin áttu auðvitað sinn þátt í að skapa hina miklu stemmningu og höfðu ýmsir á orði það væri vel við hæfi að halda slíka afmælishátíð á fundarstað Þjóðfundarins.

Um leið og húsið opnaði klukkan 17 bar fyrstu hátiðargestina að garði og fylltist hátíðarsalurinn á örfáum mínútunum. Teitur Björn Einarsson lék klassíska tóna á flygil Menntaskólans og átti það ekki sístan þátt í að skapa þá hátíðarstemmningu sem sveif yfir vötnum. Borgar Þór Einarsson, stofnandi Deiglunnar og ritstjóri, bauð gesti velkomna með stuttu ávarpi. Stiklaði hann á stóru í sögu Deiglunnar og kynnti sérstaka gesti samkomunnar, en það voru þeir Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og Egill Helgason, fjölmiðlamaður.

Menntamálaráðherra hóf mál sitt á að óska aðstandendum Deiglunnar til hamingju með afmælið og fjallaði síðan almennt um þýðingu veffjölmiðlunar á Íslandi. Sagði ráðherra að fimm ár væri langur tími í netheimum og framlag Deiglunnar til pólitískrar umræðu á Íslandi bæði gott og þarft.

Næstur tók til máls Egill Helgason og fjallaði hann um stöðu íslenskra vefmiðla, sem hann sagði hafa farið heldur dvínandi allra síðustu misserin. Egill sagði Deigluna hins vegar ánægjulega undantekningu á þessu og vísaði til fjölbreyttra og vandaðra skrifa sem helstu styrkleika Deiglunnar.

Að loknum ræðum hátíðarræðumannanna var komið að því að afhenda viðurkenningarskjal vegna útnefningar Deiglunnar á stjórnmálamanni ársins fyrir árið 2002. Það var Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sem tók við viðurkenningunni úr hendi Þórlinds Kjartansson, ritstjóra Deiglunnar. Þakkaði Árni fyrir sig með stuttri en skemmtilegri tölu.

Að lokinni formlegri dagskrá um klukkan 18 var gestum boðið upp á léttar kaffiveitingar, eins og vera ber í fimm ára afmæli, og var góður rómur gerður að veitingunum. Eins og að framan greinir var hátíðarsalurinn á 2. hæð Menntaskólans í Reykjavík þéttskipaður og munu um 100 manns hafa gert sér far um að vera við afmælishátiðina.

Deiglan þakkar kærlega þann hlýhug sem hátíðargestir sýndu í hennar garð og vonar að næstu fimm ár verði jafn gæfurík í sögunni Deiglunnar og hin fimm fyrstu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)