Í dag verður gengið til atkvæða í bandaríska þinginu um hvort George W. Bush forseta verði veitt heimild til þess að gera fríverslunarsamninga fyrir hönd ríkisins án þess að Öldungadeildin geti breytt þeim eftir á. Tvísýnt er um hvernig niðurstaða kosningarinnar verður en demókratar, sem hafa meirihluta í þinginu, eru margir á þeirri skoðun að slík heimild til forsetans sé of víðtæk.
Forseti Bandaríkjanna hefur sýnt að vilji hans til þess að koma á fríverslun í heiminum er einlægur. Það er ólíkt því sem gjarnan hefur verið uppi á teningnum hjá Bandaríkjamönnum sem gjarnan hafa dregið lappirnar í slíkum málum á grundvelli þess að fríverslun kæmi sér illa fyrir ákveðnar atvinnugreinar. Slík rök halda engu vatni þótt ekki sé deilt um að aukin samkeppni geti haft tímabundna erfiðleika í för með sér fyrir afmarkaða hópa. Reynslan sýnir hins vegar að fríverslun er almenningi mjög til góða þegar hlutirnir eru skoðaðir í stærra samhengi.
Í leiðara bandaríska stórblaðsins Washington Post í gær er skorað á þingmenn demókrata að samþykkja lögin því einungis með því geti þeir sannað einlægni sína í málinu. Hingað til hafa það nefnilega frekar verið repúblikanar sem haldið hafa aftur af framþróun í fríverslunarmálum í Bandaríkjunum. Leiðarahöfundur heldur því fram að ef demókratar samþykki ekki tillöguna þá glati þeir tilkalli sínu til hins pólitíska sviðsljóss þar sem með höfnun á samningnum væru þeir að gefa upp á bátinn hlutverk Bandaríkjamanna sem aflvaka fríverslunar í heiminum. Washington Post styður venjulega málstað Demókrataflokksins.
Verslunarfrelsi er í augum margra lykillinn að stöðugleika og lífskjarabót í heiminum. Gjarnan hefur verið nefnt að óheftur aðgangur fátækustu ríkja heims að hinum ríkari mörkuðum væri margfalt meira virði en hálfvelgjulegar friðþægingargjafir sem sendar eru til fátækari ríkja í formi styrkja og skuldaniðurfellinga. Þessar gjafir Vesturlandanna eru í raun hálfgerðar hermdargjafir þegar til lengri tíma er litið og á þá við gamli sannleikurinn um að hægt er að seðja hungur manns í einn dag með að gefa honum fisk, en með því að kenna honum að veiða er hægt að tryggja að hann svengi ekki framar. Ef þróunarlöndin hefðu tækifæri til þess að selja t.d. landbúnaðarafurðir sínar á frjálsum markaði til Evrópu og Ameríku þá næðu þessi lönd mun fyrr að auka auðlegð sína en ef áframhald verður á núverandi stefnu. Þróunarlöndin þurfa nefnilega ekki meðaukmun, þótt við finnum til samúðar með íbúum þeirra. Það sem þróunarlöndin þurfa eru tækifæri – og það er hægt að gefa þeim með fríverslun.
Kosningin á Bandaríkjaþingi í dag er því ákaflega mikilvæg. Ef Bandaríkjamenn ganga fram með góðu fordæmi í þessu máli þá munu einangrunarsinnar í Evrópusambandslöndunum verða sífellt einangraðri og að lokum gæti jafnvel tekist að brjóta niður múra tollabandalagsins og koma á alþjóðlegri fríverslun með tilstilli Alheimsviðskiptastofnunarinnar.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021