Í síðustu viku vakti sjónvarpsmaðurinn Þorsteinn J. athygli á vafasömum vinnubrögðum hjá slúðurblaðinu Séð og heyrt í grein sem birtist á vef Blaðamannafélags Íslands. En blaðið hefur margoft legið undir ámæli fyrir lágkúruleg og slæm vinnubrögð. Það var því afar ánægjulegt að kastljósinu hafi verið enn á ný beint að slúðurblaðinu fyrir þá blaðamennsku sem er þar stunduð.
Það þarf ekki að fylgjast lengi með forsíðu slúðurblaðsins í stórmörkuðum til að sjá að þessi vinnubrögð eru engin mistök. Blaðið lætur fá svið ónortin og alltaf sama virðingarleysið fyrir friðhelgi einkalífs. Hvort sem um er að ræða fyllerí á rithöfundi eða meinta samkynhneigð þekktra einstaklinga, blaðið virðist alltaf geta grafið dýpri botn í blaðamennskunni.
Undirritaður benti á vinnubrögð blaðsins í pistli sem birtist þann 13. október 2002 sem bar heitið „Botn í blaðamennsku“. Þá hafði blaðið fjallað um að þjóðþekktur álitsgjafi í sjónvarpi hafi verið ákærður fyrir nauðgun. Þar kom fram að:
Þess ber að geta að þjóðþekkti álitsgjafinn var síðan sýknaður í héraðsdómi.
Blaðamennska af þessu tagi mun náttúrulega alltaf viðgangast á meðan fólk er tilbúið að borga fyrir hana. Hún höfðar til lægstu hvata í mannskepnunni þ.e. öfundar og hnýsni. Það er óhjákvæmilegt á frjálsum markaði að einhverjir aðilar, séu tilbúnar að fórna mannvirðingu sinni, til að ganga eins langt og þeir komast í markaðsetningu þ.m.t. á einkalífi manna.
Á meðan nógu stór hópur fólks er tilbúinn til þess að láta undan þeim dapurlegu hvötum sem leiða til lestrar á Séð og heyrt er bara ein leið til að koma í veg fyrir að einkalíf og persóna einstaklinga sé höfð að féþúfu með þessum hætti. Hún er sú að setja lög og reglur til að vernda hagsmuni borgaranna fyrir þeim því slíkir einstaklingar munu alltaf ganga eins langt og þeir komast.
En hefur Séð og heyrt farið út fyrir þann ramma sem slúðurblaðinu er settur með lögum og reglum? Það þarf engan snilling til að sjá að blaðið er síbrotamaður gagnvart Blaðamannfélagi Íslands og siðareglum þess. Blaðið hefur brotið nánast hverja einustu grein í siðareglunum en það virðist hafa lítil áhrif, engin kærir blaðið til siðanefndarinnar, siðanefndin tekur málefni blaðsins ekki upp af sjálfsdáðum og furðu lítil áhugi virðist vera innan Blaðamannfélagsins til að fara ofan í kjölinn á vinnubrögðum blaðsins. Hvað varðar XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs þá hefur blaðið í besta falli margoft verið komið inn á grátt svæði með umfjöllun sinni. Sem dæmi má nefna að skv. 229. gr. alm. hgl. þá skal hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Hins vegar geta dómstólar náttúrulega einir dæmt um það og til þessa hefur ekkert fórnarlamba blaðsins látið á það reyna.
Það er einkar kaldhæðnislegt að slúðurblaðið hefur einkunarorðin „gerum lífið skemmtilegra“ því ljóst er að viðfangsefnum blaðsins er ekki skemmt. Réttara slagorð væri e.t.v. ”gerum lífið ömurlegra” því blaðið þrífst á engu öðru en eymd annarra.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020