Umræður um hugsanlega lækkun aldurs til áfengiskaupa hafa legið niðri um tíma og í raun hefur sú umræða aldrei náð neinum skriðþunga. Málið eðlilega stórmál í framhaldsskólum en um leið og fólk skríður yfir tvítugt virðist áhuginn á málinu dala. Um leið og vandamálið leysist hætta menn, eðlilega, að hugsa um það og muna ekki hve reiðir þeir eitt sinn voru út í kerfið fyrir fá ekki að kaupa bjór sem sjálfráða, bílráða og fjárráða einstaklingar.
Frumvarp þess efnis að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum niður í 18 var lagt fram af nokkrum þingmönnum árið 1995 og náði í gegnum eina umræðu í þinginu áður en það dó líkt og svo mörg þingmannafrumvörp gera. Þeir lesendur sem vilja kynna sér þá umræðu geta gert það með því smella á slóðina hér fyrir ofan. Líkt og oft þegar umræðan snýst um siðferðismál liggja skotgrafirnar þvert á flokkslínur en flutningsmenn frumvarpsins voru Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.
Því miður kom aldrei til þess að greidd yrðu atkvæði um málið því þá hefði verið hægt að kynnast afstöðu margra þingmanna sem fara fögrum orðum um hinn kosningabæra ungvið en vilja samt ekki beita sér fyrir því máli sem helst brennir á hugum þess.
Umræðan varð þó til að sett yrði á fót nefnd á vegum Dómsmálaráðuneytis til að rannsaka hvort lækka ætti áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Niðurstöður nefndarinnar voru birtar 1999 og voru eftirfarandi:
1.Áfengiskaupaaldur skyldi vera óbreyttur. Rök nefndarinnar voru þau að hugsanleg hækkun í slysatíðni vegna ölvunaraksturs vægi meira en réttindi fólks á aldrinum 18-20 og var litið til reynslu Bandaríkjamanna. Það mat er huglægt og verður ekki á deilt á. Undirritaður er þó þeirrar skoðunar að töluvert sterk rök þurfi til að takmarka réttindi fólks. Auðvitað fækkar slysum vegna ölvunaraksturs ef áfengi er bannað, en er sanngjarnt að refsa meirihlutanum með frelsisskerðingu fyrir glæpi sem lítill minnihluti fremur?
2.Verði áfengiskaupaldur lækkaður skal það aðeins eiga við bjór og léttvín. Ekki er að finna neinn rökstuðning fyrir þessu í skýrslu nefndarinnar. Nefndin stjórnaðist eflaust af almenni þörf fyrir íhaldssemi. Slík aðgerð yrði þó eflaust skref í rétta átt og gæti stuðlað að því að fæla ungt fólk frá sterkari vínum.
3.Bílprófsaldur verði hækkaður upp í 18 ár. Hér hafa nefndarmenn farið fram úr sér því þeir áttu aðeins að skoða hvort slík hækkun ætti ekki að fara fram samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs. Nefndin mælir gegn því og þessi tillaga um bílprófsaldur því fremur skrýtin.
4.Leyfilegt áfengismagn í blóði 17-20 ára ökumanna verði 0,00%. Léttbjór inniheldur áfengi. Einn léttbjór er nóg til að áfengi mælist í blóði. Það þyrfti því að banna léttbjór innan 20 ára eða banna ungu fólki að keyra degi eftir að það drekkur. Slíkt yrði reyndar í takt við stemningu innan nefndarinnar.
Jónína Bjatmarz Framsóknarkona og formaður samtaka Heimilis og skóla fór fyrir nefndinni.
Kosningar nálgast. Ungt fólk ætti að nota tímann til að spyrja frambjóðendur um afstöðu til þessa máls. Það er auðvitað hætt við að menn sem eru andvígir svari í frösum á borð við ”það verður að skoða málið vel og taka skynsamlega ákvörðun en ég er opinn fyrir öllu” til að fæla ekki frá unga kjósendur. Staðreyndin er hins vegar sú að málið hefur nú þegar verið skoðað. Kostir og gallar liggja fyrir. Málið snýst um réttindi einstaklinga gegn réttindum fjöldans.
Krefjið þau svara.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021