Á undanförnum vikum hefur farið fram mikil umræða um niðurskurð á fjárlögum. Ég verð að viðurkenna að þessi umræða hefur komið mér svolítið spánskt fyrir sjónir. Einhverra hluta vegna virðast flestir sammála um að sérstaklega nauðsynlegt sé að draga úr ríkisútgjöldum nú vegna þess samdráttar sem blasir við í efnahagsmálum.
Þetta á ég erfitt með að skilja. Af hverju er sérstaklega mikilvægt að skera niður ríkisútgjöld einmitt nú þegar hagkerfið er á leiðinni ofaní öldudal? Væri ekki nær að nota þann slaka sem myndast í hagkerfinu á næsta ári til þess að ráðast í framkvæmdir á vegum hins opinbera sem annars yrði ráðist í á árunum 2003-2005 þegar hagkerfið verður vonandi komið í fimmta gír á ný. Þannig væri unnt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. milda niðursveifluna og einnig koma alls kyns framkvæmdum frá þannig að ríkið sé ekki að þvælast fyrir þegar einkageirinn hefur not fyrir alla framleiðslugetu hagkerfisins.
Fyrr í vikunni fréttist að ríkisstjórnarflokkarnir hafi náð samkomulagi um tillögur sem fela í sér einmitt hið gagnstæða, þ.e. frestun verklegra framkvæmda. Með slíkri stefnu er ríkið í raun að magna þá efnahagslægð sem ljóst er að hagkerfið mun ganga í gegnum á næsta ári.
Önnur rök sem ítrekað hafa heyrst í umræðunni um þessi mál á undanförnum vikum er að „tekjur verði ekki í samræmi við áætlanir” og því sé „ekki annað að gera en að minnka útgjöldin.” Í þessu virðist felast að útgjöld ríkisins ráðist einfaldlega af því fé sem aflað er. Þegar góðæri ríki sé hægt að eyða fé í alls kyns vitleysu en þegar kreppir að þá þurfi að draga úr slíkri sóun. Getur virkilega verið að þetta sé ríkjandi hugsunarháttur á meðal stjórnmálamanna?
Enn annar undarlegur þáttur í þessari umræðu er að allir virðast leggja gríðalegt kapp á að ríkissjóður skili afgangi á næsta ári. Menn virðast alveg hafa misst sjónar af því að viðvarandi fjárlagaafgangur er ekki takmark í sjálfu sér. Heppilegast er að ríkið stefni að því að skila ríkissjóði sem næst núlli yfir hagsveifluna. Þegar góðæri ríkir er eðlilegt að ríkið skili afgangi og jafn eðlilegt er að ríkið sé rekið með halla á samdráttartímum. Ef ríkið aflar einhverra hluta vegna meira fé en það þarf mörg ár í röð hlýtur það einfaldlega að þýða að skattar séu of háir.
Hér er ég engan veginn að leggja til að ríkið ráðist í gamaldags „sérstakar aðgerðir” til þess að forða kreppunni. Einnig vona ég að menn mistúlki ekki orð mín þannig að ég sé á móti almennu aðhaldi í ríkisfjármálum. Gæluverkefni stjórnmálamanna og annað bruðl með skattfé almennings er vitaskuld algerlega óþolandi. Ég er einfaldlega að benda á að stór hluti af útgjöldum ríkisins er þess eðlis að auðvelt er að færa þau á milli ára (s.s. verklegar framkvæmdir) og að skynsamlegast sé að ríkið ráðist í sem stærstan hluta af þeim framkvæmdum sem það ætlar á annað borð að ráðast í þegar hagkerfið er í lægð.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009