Melkorka Óskarsdóttir, formaður Heimsþorps, samtaka gegn kynþáttafordómum á Íslandi, fór mikinn á vefriti ungra jafnaðarmanna í gær. Umfjöllunarefni formannsins var fræðslufundur sem Vaka fls., hélt í síðustu viku um kynþáttahatur undir yfirskriftinni „Raunsæi eða rasismi? Eru Íslendingar fordómafullir í garð innflytjenda?“ en meðal frummælenda var fulltrúi félags íslenskra þjóðernissinna. Var að skilja á formanninum að hann væri á móti því að þjóðernissinnar fengju að tjá sig á slíkum fundum og voru skrif hennar full af vanþóknun og dylgjum í garð Vöku fyrir að hafa haldið fundinn og látið liggja að því að Vaka hefði áþekkar skoðanir og fulltrúar félags íslenskra þjóðernissinna. Þó var einn frummælandinn fyrrum formaður Vöku og hélt hann fram skoðunum sem eru algjörlega samhljóma málflutningi Heimsþorps.
Það var eins og við manninn mælt, Röskva kom með yfirlýsingu í kjölfarið. Þar var því m.a. haldið fram að það að gefa mönnum tækifæri á að lýsa slíkum skoðunum á almannafæri sé annað hvort viðurkenning á málstaðnum eða skrumskæling á tjáningarfrelsinu! Já, þannig að þegar RÚV birti um klukkurtímalangt myndband með Osama Bin Laden þar sem hann og fl. hvöttu menn til morða og hryðjuverka á vestrænum borgurum þá var íslenska ríkissjónvarpið að viðurkenna málstað Osama, er það ekki? Hvatning til ofbeldis og glæpa getur nefnilega aldrei notið verndar tjáningarfrelsis þannig að skrumskælingin er út úr myndinni. Yfirlýsing Röskvu lauk á ávarpi til stúdenta þar sem ítrekað var að þeir þyrftu ekki að velkjast í vafa með hvaða skoðanir Röskva hefði á rasisma – og var þar með vitaskuld verið að gefa í skyn að eitthvað annað væri uppi á tengingnum hjá Vöku. Forráðamenn Röskvu hafa nú séð sóma sínn í að fjarlægja þessa ósmekklegu færslu af vef sínum og ber sannarlega að hrósa þeim fyrir að hafa séð að sér með þennan málflutning.
Þetta er hættulegur stígur sem formaður Heimsþorps og Röskva eru farin að feta sig eftir en þau eru svo sannarlega hvorki fyrstu né síðustu sjálfskipuðu krossfararnir sem vilja í nafni góðs málstaðar hefta tjáningu skoðana sem eru þeim ekki þóknanlegar.
Við megum aldrei gleyma því að tjáningarfrelsi er grundvallarmannréttindi á sama hátt og jafnrétti. Það er mikill tvískinnungur í því að berjast fyrir einum afmörkuðum þætti mannréttinda en vilja á sama tíma takmarka annan þátt. Mannréttindasáttmáli Evrópu býður ekki upp á slíka misnotkun en sá skilningur hefur margoft komið fram hjá Mannréttindadómstól Evrópu að ekki sé heimilt að nota mannréttindi til að ráðast á önnur mannréttindi. Þannig að á sama hátt og rasistar geta ekki notað tjáningarfrelsi til að hvetja fólk til ofbeldis á innflytjendum þá geta mannréttindasamtök ekki notað réttinn til jafnréttis sem afsökun til að hindra tjáningarfrelsi (Að því gefnu að viðkomandi kynþáttahatara séu ekki beinlínis að hvetja til ofbeldis eða annara brota á hagsmunum sem eru verndaðir af sáttmálanum en þá njóta þeir ekki verndar).
Rasismi er ekki smitsjúkdómur, hann er lögleg vitleysa. Það er móðgun við heilbrigða skynsemi að halda því fram að menn verði rasistar af því að heyra barnaleg rök félags þjóðernissinna. Skoðanir þeirra eru frekar til þess fallnar að fæla menn frá kynþáttafordómum. Við getum ekki litið fram hjá því að skoðanir þeirra eru hluti af umræðunni um þessi mál, sama hversu kjánalegar þær eru. Í pistli hér á Deiglunni þann 29. mars 2001 skrifaði Þórlindur Kjartansson um yfirlýsingar frá þessum mönnum:
Eins og alltaf þá verður við að heimila sérhverjum einstakling að beita þeirri gagnrýnu hugsun sem hann hefur til að vega og meta rökin fyrir hverri skoðun og gera síðan upp hug sinn. Þannig er frjálst og forræðishyggjulaust þjóðfélag byggt upp. Það er aldrei lausn í frjálsu þjóðfélagi að banna eina skoðun til að þröngva fólki á aðra, sama hversu göfug hún er.
Það er sagt að vegurinn til vítis sé lagður með góðum ásetningi. Við verðum að sýna öðrum skoðunum sama umburðarlyndi og við predikum að allir aðrir verði að sýna innflytjendum, annað er hræsni. Tjáningarfrelsið verndar líka kjánalegar skoðanir. Ef við förum niður þann veg að velja hvaða skoðanir séu þóknanlegar og banna allar hinar þá endar þjóðfélagið bara á einum stað, þrátt fyrir fagran og góðan ásetning í upphafi ferðar.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020